Rætt var um það í ríkisstjórn Íslands í dag hvenær unnt væri að heimila íþróttastarf í landinu á nýjan leik en æfinga- og keppnisbann hefur verið í gildi frá 25. mars síðastliðnum.

Eins og sakir standa gildir bannið til 15. apríl næstkomandi en menntamálaráðherra vekur von í brjósti íþróttafólks um að þeir geti farið að æfa og keppa á nýjan fyrir þann tíma í tilkynningu sem hún sendir frá sér í dag.

„Það er forgangsmál hjá stjórnvöldum að koma íþrótta- og æskulýðstarfi af stað enda er um mikilvægt lýðheilsumál að ræða. Það er brýn þörf á að virkja iðkendur og tryggja samfellu í æfingum íþróttafólks.

Nú er markmiðið að íþróttastarf geti hafist samhliða sóttvarnarráðstöfunum. Fram hefur komið að mikil þörf er á að fyrirsjáanleiki aukist um hvernig skipulagi verði háttað," segir í tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu.

„Mikilvægt er að samræmi sé í takmörkunum í skólastarfi og íþrótta- og æskulýðsstarfi ásamt því að tryggja að skipulag íþróttastarfs sé sambærilegt í alþjóðlegu samhengi, eins og frekast er unnt.

Við í mennta- og menningarmálaráðuneytinu höfum í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið og sóttvarnalækni unnið að því að undirbúa að umrædd starfsemi geti hafist við fyrsta tækifæri," segir enn fremur í tilkynningunni.