„Þetta er svolítið sérstakt enda mjög mikil breyting á stuttum tíma. Það er auðvitað ákveðinn kjarni sem er enn til staðar en við misstum heilmikið, bæði með þeim sem fóru út og með Sonný Láru. Sonný var var mikill karakter og fyrirliðinn,“ segir landsliðskonan og sóknartengiliður Breiðabliks, Agla María Albertsdóttir, aðspurð hvort það sé ekki sérkennilegt að mæta til æfinga þessa dagana eftir brotthvarf fjölmargra lykilmanna á stuttum tíma.

Sonný Lára Þráinsdóttir lagði markmannshanskana á hilluna á dögunum og þá eru fimm landsliðskonur, Alexandra Jóhannsdóttir, Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir, Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, búnar að yfirgefa Breiðablik á tæpu ári og hafa haldið út í atvinnumennsku. Þá var Sveindís Jane Jónsdóttir í lykilhlutverki hjá Breiðablik í fyrra á láni frá Keflavík en er nú komin út í atvinnumennsku.

„Það er auðvelt að samgleðjast þeim. Þó að það væri auðvitað gaman að hafa þær áfram á æfingunum hjá okkur er gaman að sjá þær taka næsta skref á sínum ferli.“

Stefnir á að fara út eftir tímabilið

Hin 21 árs gamla Agla er þrátt fyrir ungan aldur að nálgast hundrað leiki í efstu deild. Flestir þeirra hafa komið með uppeldisfélaginu, Breiðabliki, en hún lék einnig um tíma með Val og Stjörnunni. Í 93 leikjum hefur Agla skorað 44 mörk og þrisvar orðið Íslandsmeistari. Þá á hún að baki 33 A-landsleiki.

„Það er enn stefnan að fara út eftir þetta tímabil, svo er maður alltaf með opin augun fyrir tilboðum. Ég hef það gott hjá Breiðabliki og hef í raun ekki enn verið að leitast eftir því að fara út. Ég er samningsbundin út þetta tímabil og ég geri ráð fyrir að skoða mína möguleika betur næsta haust,“ segir Agla sem ætlar að klára háskólagráðuna fyrst. Fyrirspurnir að utan fóru því aldrei á viðræðustig í vetur.

„Það er næsta skref á ferlinum, að fara út í atvinnumennsku er skref sem ég ætla mér að taka á einhverjum tímapunkti.“