Það bendir allt til þess að UFC goðsögnin Nate Diaz sé loksins að fá bardaga eftir langa bið. Hunter Campbell, einn af stjórnendum UFC staðfesti í samtali við ESPN á dögunum að bardagi Diaz gegn Khamzat Chimaev sé á borðinu.

Chimaev er rísandi stjarna innan UFC og hefur gjörsamlega valtað yfir andstæðinga sína en fékk fyrstu alvöru mótspyrnuna gegn Gilbert Burns í sínum síðasta bardaga. Chimaev er þó ósigraður og það yrði áhugavert að sjá hann takast á við reynsluboltann Nate Diaz.

Diaz hefur í marga mánuði verið að biðja um bardaga en hann á aðeins einn bardaga eftir á samningi sínum við UFC.

Hunter Campbell staðfesti í samtali við ESPN að drög UFC miðuðu við að bardaginn færi fram á bardagakvöldi í Las Vegas þann 10. september næstkomandi.

Diaz er einna þekktastur fyrir tvær rimmur sínar við írska vélbyssukjaftinn Conor McGregor. Diaz vann fyrri bardagann þeirra á milli en Conor svaraði fyrir sig í þeim seinni.