Úrslitin á Evrópumeistaramótinu í hópfimleikum í fullorðinsflokki ráðast í dag þegar karla- og kvennalandslið Íslands stíga inn á stóra sviðið. Hársbreidd munaði á kvennaliði Íslands og liði Svíþjóðar í undankeppninni, en einungis 0.950 stig skildu liðin tvö að, en það jafngildir í raun bara einu falli.

Landsliðskonan Hekla Mist Valgeirsdóttir var ánægð með undankeppnina og segir kvennaliðið eiga nóg inni til að sækja Evrópumeistaratitillinn.

„Við spiluðum ekki öllu út í undankeppninni og eigum svolítið inni,“ sagði Hekla, eftir undankeppnina á fimmtudaginn. „Við vorum að spara okkur til að geta negla á þetta allt í úrslitunum,“ bætti hún við.

Kvennaliðið negldi allar lendingarnar sínar á dýnunni. Þá fengu stelpurnar 20.700 stig á gólfi í undan­keppninni, sem var hæst allra liða. Smávægileg mistök á trampó­líninu kostuðu hins vegar sitt.

„Við negldum allt á dýnunni. Það voru smá hnökrar í síðustu lendingunni á trampólíninu en það er bara gott að eiga smá inni, þá getum við komið grimmar inn í úrslitin,“ segir Hekla.

.

Hekla Mist Valgeirsdóttir

Það stefnir allt í hreina lendingakeppni milli Íslands og Svíþjóðar í úrslitunum á eftir, en stelpurnar eru tilbúnar í verkefnið.

Það má búast við því að íslenska kvennaliðið muni bæta við nokkrum erfiðari stökkum á dýnunni í úrslitunum, en einkunnir í hópfimleikum miðast við erfiðleika æfinganna og svo er dregið frá fyrir framkvæmd.

Úrslitin í unglingaflokki réðust í gær og nældi stúlknalandslið Íslands sér í silfur, en einungis 0.1 stig skildi Ísland og Svíþjóð að. Kvennaliðið getur því hefnt harma stúlknanna, nái þær að næla sér í titilinn á eftir.

Karlalandsliðið verður einnig í eldlínunni, en liðið hefur vakið verðskuldaða athygli á mótinu í ár, enda hefur Ísland ekki sent karlalið á EM í hópfimleikum í nærri áratug. Strákarnir hafa komið undirrituðum og áhorfendum á óvart enda verið frábærir. Liðið endaði í öðru sæti í undankeppninni og munu drengirnir leggja allt í sölurnar á eftir

Ágúst Óliver Erlingsson

Landsliðsmaðurinn Ágúst Ólíver Erlingsson var í sjöunda himni eftir undankeppnina og sagði að liðið væri ekkert eðlilega sátt með árangurinn, enda ætlaði allt bókstaflega að tryllast baksviðs þegar síðasta einkunn liðsins var kynnt og það var ljóst að þeir flugu inn í úrslitin í öðru sæti.

„Þetta var ruglað. Þetta var svo geggjað,“ sagði Ágúst Óliver strax eftir undankeppnina á fimmtudaginn. „Við erum ekkert eðlilega sáttir.“

Hann segir strákana vera vel stemmda fyrir úrslitin. „Þetta verður hart og þetta verður erfitt, en við erum að fara að mæta þarna til að rugla í hlutunum,“ segir Ágúst.

„Það er rugluð stemning í hópnum. Við erum með svo ótrúlega góða liðsheild. Við hvetjum hvern annan svo mikið. Það eru allir svo miklir vinir að það er bara klikkun. Þetta er einhver allt önnur upplifun, en ég hef nokkurn tíma upplifað áður,“ segir Ágúst.

Andrea Sif Pétursdóttir og Kolbún Þöll Þorradóttir ánægðar með æfingarnarnar sínar í undankeppninni