„Ég er mjög ánægður hérna og það er mjög vel haldið utan um varaliðið hér. Stefnan er sú að finna unga og efnilega leikmenn og skila þeim upp í aðalliðið. Af þeim sökum er vel haldið utan um okkur í varaliðinu og við erum með sterkt lið.

Æfingahópurinn er góður og við höfum verið að vinna U-23 ára lið Arsenal og Leicester City sem dæmi. Síðan ég kom hingað hafa þrír leikmenn úr varaliðinu fengið tækifæri í leik hjá aðalliðinu og einn þeirra var búinn að vera hérna í tvo mánuði þegar hann fékk sénsinn. Það er því augljóst að þeir sem standa sig með varaliðinu eru færðir upp,“ segir Valgeir Valgeirsson í samtali við Fréttablaðið.

Valgeir gekk til liðs við Brentford frá HK í haust en þessi 18 ára leikmaður segist hafa þurft rúman mánuð til að aðlagast þeim hraða og leikstíl sem enska liðið leikur.

„Ég hef aldrei þurft að hlaupa jafn mikið á æfingum og í leikjum. Liðið vill halda boltanum, stýra leikjum og spila hápressu allan leikinn.

Það er enginn afsláttur gefinn og þú færð að heyra það ef þú ert ekki að hreyfa þig án bolta í sóknarleiknum og ert ekki með í hápressunni í varnarleiknum,“ segir HK-ingurinn um fyrstu mánuðina hjá Brentford en hann leikur þar sem lánsmaður út yfirstandandi keppnistímabil.

„Þjálfarateymið hjá Brentford hugsar mig sem kantmann eða vængbakvörð í leikkerfinu 3-4-3. Mér finnst ég hafa bætt mig í því að koma mér í góðar stöður inni í vítateignum og klára færin.

Ég hef skorað fjögur mörk í þeim níu leikjum sem ég hef spilað fyrir liðið og komið mér í góða stöður í öllum leikjunum. Nú er bara að halda áfram að standa mig í æfingum og leikjum og bæta mig,“ segir hann um þróun mála í Brentford.

Þvær af sér í baðinu á hótelinu

Brentford hefur haft þá stefnu síðan Matthew Benham keypti félagið árið 2012 að leggja áherslu á njósnarastarf sitt, öflun tölfræðigagna um þá leikmenn sem félagið kaupir og að leiðin sé greið hjá ungum leikmönnum varaliðsins upp í aðalliðið.

„Ég setti mér það markmið þegar ég kom hingað að ná að æfa með aðalliðinu áður en þessu ári lýkur og ég æfði með aðalliðinu um daginn þannig að það tókst.

Næsta langtímamarkmið er síðan að vera kominn í aðalliðshópinn fyrir næsta keppnistímabil. Annars tek ég bara eina æfingu og einn leik fyrir í einu,“ segir Valgeir um framhaldið.

„Ég hef búið á hóteli hérna fyrstu vikurnar þar sem það hefur ekki tekist að koma mér fyrir hjá fósturfjölskyldu vegna COVID. Ég hef ekki aðgang að þvottavél þannig að ég hef þurft að þvo af mér með þvottaefni í baðinu á hótelherberginu.

Maður þarf bara að redda sér. Annars kann ég mjög vel við mig hérna í Brentford. Liðsfélagarnir og þjálfararnir hafa tekið mjög vel á móti mér og fólkið í borginni er mjög vingjarnlegt.

Mér líður mjög vel hérna og er bara sáttur við allt hingað til. Það er svo mikill uppgangur hjá félaginu og ég fann það strax þegar ég kom hingað að stefnan er sett á að lyfta liðinu upp á hærri stall.

Það á að gera með því að hugsa vel um innviðina og byggja upp leikmenn sem geta leikið með aðalliðinu. Vonandi komumst við upp í úrvalsdeild í vor,“ segir U-21 árs landsliðsmaðurinn.