Knattspyrnumaðurinn Kolbeinn Birgir Finnsson er á sínu öðru ári hjá þýska félaginu Borussia Dortmund. Þar æfir hann og leikur með varaliði félagsins sem leikur í D-deildinni þar í landi. Kolbeinn Birgir segir það vera líkt því að æfa með félagsliði að leika með varaliðinu og stefnan hjá liðinu sé að fara upp um deild á þessari leiktíð.

Það markmið gengur vel þar sem liðið trónir eins og sakir standa á toppi deildarinnar. Kolbeinn Birgir hefur leikið 15 leiki á tímabilinu og skorað í þeim leikjum tvö mörk. Strik hefur sett í reikninginn að hann missir af leikjum vegna landsliðsverkefna með U-21 árs landsliðinu og hefur það orðið til þess að hann missti sæti sitt í byrjunarliðinu. Kolbeinn er á leið á lokakeppni Evrópumótsins með U-21 árs landsliðinu í lok mars og þá mun hann til að mynda missa af tveimur til þremur leikjum Dortmundar-liðsins.

„Mér líður mjög vel hérna hjá Borussia Dortmund og ég tel mig klárlega hafa bætt mig sem fótboltamann hérna. Hér er ég hugsaður sem vængbakvörður en hef líka spilað kantinn, ég kann vel við báðar stöður þó ég líti sjálfur frekar á mig sem kantmann. Við erum að æfa eins og félagslið bara og það er vel haldið utan um leikmenn liðsins og metnaður til þess að varaliðið standi sig vel og færi sig upp um deildir. Þá hafa leikmenn sem standa sig vel með varaliðinu fengið sénsinn með aðalliðinu,“ segir Kolbeinn um lífið í Dortmund.

Kol­beinn kom til Brent­ford haustið 2019 en hann var á mála hjá enska B-deildarfélaginu frá ár­inu 2018 og spilaði aðalliðsleik fyr­ir fé­lagið. Þar áður var þessi uppaldi Fylkismaður hjá hollenska félaginu Groningen.

„Þó svo að ég sé sáttur hérna hjá Borussia Dortmund þá er ekkert launungarmál að ég stefni að því að spila aðalliðsfótbolta á næstu árum. Ég er samningsbundinn Borussia Dortmund í rúmt ár til viðbótar en ég mun skoða þá kosti sem eru í boði ef einhverjir verða í sumar. Við sjáum bara til hvernig þetta þróast.

Það er ekkert stress á mér þar sem ég kann mjög vel við mig hérna hjá Dortmund og aðstæður til þess að bæta mig enn frekar eru klárlega til staðar. Það væri öðruvísi ef ég myndi finna fyrir því að lítið væri lagt upp úr varaliðinu og framþróun minni sem leikmanns og engin stefna væri hjá liðinu. Svo er hins vegar klárlega ekki hjá Borussia Dortmund,“ segir hann um framhaldið.