Frjáls­í­þrótta­sam­band Ís­lands stefnir enn á að halda Meistara­mót Ís­lands um helgina þrátt fyrir að ein­stak­lingur sem tók þátt í meistara­mótinu fyrir 15 til 22 ára síðast­liðna helgi hafi greinst með CO­VID-19 í vikunni.

„Eins og staðan er núna höldum við okkar striki og ætlum að halda Meistara­mót um helgina. Við höfum verið í sam­skiptum við Al­manna­varnir og þeir ráð­leggja okkur að halda á­formum okkar til streitu en gæta vel að sótt­vörnum,," segir Freyr Ólafs­son for­maður FRÍ um stöðu mála.

„Það eru einhverjir keppendur sem ætluðu að taka þátt á mótinu sem gætu hafa smitast eða verða í sóttkví. Ég er samt ekki með upplýsingar um hvaða einstaklingar það eru eða fjölda þeirra," segir Freyr enn fremur.

Vel hugað að sóttvörnum

Líkt og greint var frá fyrr í dag greindust tvö innan­lands­smit í gær og var annað þeirra tengt aðilanum á mótinu. Á þriðja tug ein­stak­linga eru nú komnir í sótt­kví og er smitrakningu nánast lokið að sögn Guðmundar Karls­sonar, fram­kvæmda­stjóra FRÍ. „Það er búið að tengja alla þá sem mögu­lega komu að við­komandi aðila,“ segir Guðmundur í sam­tali við Frétta­blaðið.

„Miðað við sam­töl við Al­manna­varna­deild og aðra, þá er þetta náttúru­lega okkar á­kvörðun hvað við gerum, en við sáum svo sem enga á­stæðu til annars en að bara bæta í þessar að­gerðir á staðnum, að spritta á­höld og tæki og tól, og bara gæta sín,“ segir Guð­mundur.

Þá bætir hann við að mögu­lega gætu á­formin breyst ef nýjar upp­lýsingar koma í ljós en að svona sé staðan í dag. „Við erum bara að fylgja þeim sem vita raun­veru­lega meira um málið heldur en við,“ segir hann að lokum