Frjálsíþróttasamband Íslands stefnir enn á að halda Meistaramót Íslands um helgina þrátt fyrir að einstaklingur sem tók þátt í meistaramótinu fyrir 15 til 22 ára síðastliðna helgi hafi greinst með COVID-19 í vikunni.
„Eins og staðan er núna höldum við okkar striki og ætlum að halda Meistaramót um helgina. Við höfum verið í samskiptum við Almannavarnir og þeir ráðleggja okkur að halda áformum okkar til streitu en gæta vel að sóttvörnum,," segir Freyr Ólafsson formaður FRÍ um stöðu mála.
„Það eru einhverjir keppendur sem ætluðu að taka þátt á mótinu sem gætu hafa smitast eða verða í sóttkví. Ég er samt ekki með upplýsingar um hvaða einstaklingar það eru eða fjölda þeirra," segir Freyr enn fremur.
Vel hugað að sóttvörnum
Líkt og greint var frá fyrr í dag greindust tvö innanlandssmit í gær og var annað þeirra tengt aðilanum á mótinu. Á þriðja tug einstaklinga eru nú komnir í sóttkví og er smitrakningu nánast lokið að sögn Guðmundar Karlssonar, framkvæmdastjóra FRÍ. „Það er búið að tengja alla þá sem mögulega komu að viðkomandi aðila,“ segir Guðmundur í samtali við Fréttablaðið.
„Miðað við samtöl við Almannavarnadeild og aðra, þá er þetta náttúrulega okkar ákvörðun hvað við gerum, en við sáum svo sem enga ástæðu til annars en að bara bæta í þessar aðgerðir á staðnum, að spritta áhöld og tæki og tól, og bara gæta sín,“ segir Guðmundur.
Þá bætir hann við að mögulega gætu áformin breyst ef nýjar upplýsingar koma í ljós en að svona sé staðan í dag. „Við erum bara að fylgja þeim sem vita raunverulega meira um málið heldur en við,“ segir hann að lokum