Stefnt er að því að hefja leik í ensku úrvalsdeild­inni í knattspyrnu karla í byrjun júní næstkomandi. Þetta kemur fram í enskum fjölmiðlum í dag. Forsvarsmenn deildarinnar leita nú leiða með breskum stjórnvöldum til þess að koma deildinni af stað aftur en hlé er gert á deildinni þessa stundina vegna kórónaveirufaraldursins.

COVID 19-veiran herjar harkalega á Bretlandseyjar þessa dagana en 47.806 eru smitaðir samkvæmt nýjustu tölum og í morgun höfðu 4.934 látist af völdum veirunnar.

Forráðamenn félaga í deildinni hafa lýst því yfir að þeir telji að félögin muni fara í gjaldþrot verði yfirstandandi leiktíð ekki kláruð. Nokkur félög hafa leitað til stjórnvalda með aðstoð um launagreiðslur starfsmanna félagsins og hefur Liverpool, efsta lið deildarinnar, legið undir gagnrýni fyrir að hafa gert það.

Talið er að ekki sé mögulegt að klára þá leiki sem eftir eru af deildarkeppninni á annan hátt en fyrir luktum dyrum og yrði leikjunum sýndir í beinni útsendingu. Leikmenn og forráðamenn liðanna yrðu svo settir í einangrun á milli æfinga og leikja hjá sér.