Starfsteymi HSÍ, þjálfarateymi landsliðsins og þrír leikmenn karlalandsliðsins í handbolta þurfa að dúsa lengur erlendis eftir að flug Icelandair var fellt niður frá Kaupmannahöfn.

Þetta staðfesti Róbert Geir Gíslason, framkvæmdarstjóri HSÍ, í samtali við Fréttablaðið í dag.

Flestir leikmanna íslenska liðsins eru atvinnumenn erlendis og gátu því haldið heim á leið í dag en Ýmir Örn Gíslason, Kári Kristján Kristjánsson og Haukur Þrastarson eru allir á heimleið til Íslands ásamt þjálfara- og starfsteymi íslenska liðsins.

Aðspurður sagði Róbert að hópurinn væri ennþá í Svíþjóð en áætlað væri að færa sig yfir til Kaupmannahafnar í dag. Búið væri að gera ráðstafanir enda væri lítið hægt að gera í þessu.

Það er ef til vill viðeigandi að vandræði séu á ferðalagi landsliðsins heim á leið eftir að Srákarnir okkar þurftu að ferðast um miðja nótt til Kaupmannahafnar stuttu fyrir mót þegar Icelandair þurfti að flýta flugi til Kaupmannahafnar vegna veðurskilyrða.