Valsarar voru að vonum kampakátir eftir að hafa tryggt sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í körfubolta í 39 ár eftir sigur á Tindastól í oddaleik í gærkvöldi. Gleðin teygði sig alla leið yfir á yfirráðasvæði erkifjendanna í KR en við Meistaravelli í morgun mátti sjá fána Vals blakta á fánastöng.

Valsmenn hafa því hefnt sín á athæfi KR-inga frá árinu 1999 eftir að KR hafði tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu það árið. Þá flögguðu KR-ingar KR fánanum að Hlíðarenda.

Vefsíðan Karfan.is segir frá því í að starfsmönnum KR hafi verið nokkuð brugðið þegar þeir mættu til vinnu á Meistaravöllum í morgun en þá hafði fána Vals verið flaggað fyrir framan íþróttahús og fótboltavöll félagsins.

Rígurinn á milli KR og Vals er og hefur alltaf verið mikill. Í körfunni hefur það gerst undanfarin ár að lykilmennirnir á bak við fjölmarga Íslandsmeistaratitla KR skipti yfir til Vals. Þar má helst nefna Jón Arnór Stefánsson, Pavel Ermolinski og Kristófer Acox. Þá var þjálfarinn Finnur Freyr Stefánsson, sem gerði KR að Íslandsmeisturum fimm ár í röð, fenginn til þess að þjálfa Valsliðið.

Mynd: Karfan.is