Knattspyrnusamband Íslands mun ekki gefa upp hvernig starfslokum Eiðs Smára Guðjohnsen hjá sambandinu er háttað. Í svari til Fréttablaðsins kemur fram að greiðslur til Eiðs Smára við starfslok séu trúnaðarmál.

Greint var frá því seint á þriðjudagskvöld að KSÍ og Eiður Smári hefðu verið á sama máli um að binda enda á samstarfið. Ákvæði var í samningi Eiðs Smára, sem KSÍ mun virkja 1. desember. Þá verður samningi hans sagt upp, en slíkt ákvæði var í samningi sem Eiður Smári skrifaði undir sem aðstoðarþjálfari landsliðsins fyrir tæpu ári síðan.

„Það er fjallað um skilmála vegna starfsloka í ráðningarsamningi KSÍ við Eið Smára og eftir þeim er unnið, án þess að við séum að fara nánar út í hvernig þeir skilmálar eru, enda slíkur samningur trúnaðarmál,“ segir í skriflegu svari frá KSÍ við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari landsliðsins, er með sama ákvæði í samningi sínum en uppsagnarákvæðið er í gildi frá 1. til 15. desem­ber. Ekkert bendir þó til að KSÍ muni nýta sér það ákvæði í samningi Arnars.