Þorgrímur Þráinsson, fyrrum landsliðsmaður og starfsmaður KSÍ, segir starfsfólk sambandsins fá litlar þakkir fyrir sín störf. Hann minnist þess sjálfur ekki að hafa þakkað landsliðsþjálfurum fyrir að velja sig í liðið, eða öðrum fyrir að gefa sér færi á að starfa í kringum landsliðið.

Þetta kemur fram í færslu sem Þorgrímur birtir á Facebook-síðu sinni, en þar blandar hann sér í umræðu um landsliðsfólk sem hefur gagnrýnt KSÍ á dögunum.

Umræðan hófst þegar landsliðskonan Dagný Brynjarsdóttir gagnrýndi á dögunum að hún skyldi ekki fá sérstaka heiðurstreyju þegar hún hafði leikið hundrað landsleiki, líkt og leikmenn karlalandsliðsins.

„Hvenær þakkar maður fyrir sig, hverjum þakkar maður og af hverju? Hafa leikmenn landsliðsins þakkað KSÍ fyrir að greiða þeim 100.000 á stig, þ.e. 300.000 krónur fyrir sigur í keppnisleik, burtséð frá því hvort þeir spila eða ekki? Þakka leikmenn KSÍ fyrir að veita þeim styttu (áður armbandsúr) fyrir að hafa spilað 50 landsleiki og gefa þeim málverk eftir 100 landsleiki? Ég hef aldrei heyrt um þakkarbréf frá landsliðsmanni í kjölfar þessara höfðinglegu gjafa. Þakka leikmenn KSÍ og landsliðsþjálfurum fyrir að gefa þeim tækifæri á stærsta sviðinu, lokakeppni þar sem alla dreymir um að vera? Ógleymanleg augnablik.“ skrifar Þorgrímur.

Þá segir Þorgrímur að starfsfólk KSÍ leggi sig allt fram daglega, en að vissulega geti mistök átt sér stað. „Við gerum öll mistök og vissulega má samræma eitt og annað, eftir ábendingar. Skrifstofa KSÍ er undirmönnuð, það vita þeir sem vilja, og starfsfólkið er undir gríðarlegu álagi alla daga.“ segir hann og bætir við að starfsfólk annara knattspyrnusambanda gapi þegar það heyri af starfsmannafjölda KSÍ.

„Sífellt fleiri kroppa í KSÍ og starfsfólkið getur ekki borið hendur fyrir höfuð sér en situr undir ásökunum. Auðvitað eiga formaður og framkvæmdastjóri að svara fyrir aðgerðir eða aðgerðaleysi og það er misvel gert en starfsmenn líða fyrir álagið og ásakanirnar.“ skrifar Þorgrímur, sem endar færslu sína á að þakka því fólki sem hann starfaði með á ferli sínum hjá KSÍ.