Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er til skoðunar hjá knattspyrnudeild FH að segja upp samningi Eiðs Smára Guðjohnsen sem þjálfara liðsins.

Heimildir Fréttablaðsins herma að æðstu stjórnendur Fimleikafélagsins hafi nú í morgunsárið rætt alvarlega stöðu félagsins og hvort þjálfari liðsins þurfi að víkja.

FH er í fallsæti í Bestu deild karla þegar fjórir leikir eru eftir. Eiður Smári tók við þjálfun liðsins í júní ásamt Sigurvini Ólafssyni.

Ekkert hefur gengið né rekið eftir að Eiður og Sigurvin tóku við af Ólafi Jóhannessyni. Liðið mætir Leikni á sunndag sem er stigi fyrir ofan FH og er í öruggu sæti.

Í Kaplakrika er staða liðsins til umræðu þessa stundina en ekki náðist í hæstráðrendur þar við vinnslu fréttarinnar. Búist er við frekari tíðindum þegar líður á daginn.