Spænska knattspyrnusambandið segist ætla að standa með Jorge Vilda, þjálfara kvennalandsliðsins, eftir að fimmtán landsliðskonar kröfðust afsagnar hans og afboðuðu sig í næstu verkefni.

Hópur spænska landsliðsins fyrir næsta verkefni var kynntur í gær og var þar staðfest að enginn af umræddum leikmönnum væri í hópnum.

Þær saka Vilda um andlegt ofbeldi en spænska liðið hefur unnið 61 af 91 leikjum undir stjórn þjálfarans.

Vilda tók við liðinu haustið 2015 og var með eitt sigurstranglegasta lið Evrópumótsins fyrr á þessu ári áður en Alexia Putellas sleit krossband á æfingu stuttu fyrir mót.

Um tíma vann spænska liðið sextán leiki í röð og skoraði í þeim 96 mörk án þess að fá á sig mark í aðdraganda Evrópumótsins. Spænska liðið komst hvað næst því að vinna verðandi Evrópumeistara Englands á mótinu.