Gríski körfuboltamaðurinn Giannis Antetokounmpo hefur samið við Milwaukee Bucks en samningurinn sem er til fimm ára er sá stærsti í sögu NBA-deildarinnar í körfubolta karla.

Antetokounmpo fær 228,2 milljónir bandaríska dollara á samningstímanum en James Harden sem leikur með Houston Rockets var fyrir þessa undirritun launahæsti leikmaður deildarinnar.

Síðustu tvö keppnistímabil hefur Antetokounmpo verið valinn besti leikmaður NBA-deildarinnar en hann hefur leikið með Milwauke Bucks síðan árið 2013. Félagið valdi hann þá í nýliðavalinu þegar hann lék í næstefstu deild í Grikklandi.

Síðan þá hefur hann bætt sig statt og stöðugt en á síðustu leiktíð skoraði Antetokounmpo 29,5 stig að meðaltali, tók 13,6 fráköst og haf 5,6 stoðsendingar. Það skilaði þriðja hæsta framlagi í sögu NBA.