„Þetta er klárlega stærsti leikur sem ég og aðrir leikmenn liðsins höfum spilað á ferlinum. Það er gríðarlega gaman að lengja tímabilið með svona stóru og spennandi verkefni,“ segir Berglind Björg Þorvaldsdóttir, framherji Breiðabliks, um komandi verkefni liðsins gegn PSG í kvöld.

Breiðablik tekur á móti franska liðinu í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

„PSG er að mæta hingað með lið stútfullt af stórstjórnum og það verður gaman að spila við þær. Við þurfum að vera agaðar og þéttar í okkar varnarleik og sækja hratt þegar við vinnum boltann. Þær fara hátt með liðið sitt þegar þær sækja og við ættum að geta fundið pláss til þess að herja á þær,“ segir markaskorarinn enn fremur.

„Við munum líklega ekki fá mörg færi í þessum þannig að við verðum að nýta þau þegar þau gefast. Við höfum áður spilað leiki þar sem við liggjum til baka og sækjum hratt þó við gerum það ekki mikið þegar við spilum heima," segir Berglind sem hefur skorað níu mörk í fimm leikjum í Meistaradeildinni á yfirstandandi leiktíð.

Spennustigið er ekki of hátt hjá leikmönnum liðsins

Þrátt fyrir það þær séu að fara að glíma við lið sem er með landsliðskonur úr bestu landsliðum heims segist Berglind finna fyrir ró innan leikmannahópsins.

„Það er mikil spenna í okkar herbúðum en mér finnst spennustigið vera gott og leikmenn rólegir og yfirvegaðir þrátt fyrir umfang leiksins. Við gerum okkur grein fyrir að verkefnið veðrur erfitt en við ætlum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að ná í hagstæð úrslit,“ segir Berglind Björg um leikinn í kvöld.

„Við vorum margar í landsliðsverkefnum með U-19 ára og A-landsliðunum sem var jákvætt þannig að hugurinn væri ekki eingöngu á þessum stórleikjum. Það stytti biðina fram að þessum leikjum. Eftir að við komum til baka þá höfum við farið vel yfir andstæðinginn og við erum vel undirbúnar," segir framherjinn.

„Ég hef fundið fyrir miklum áhuga á þessum leik og mér finnst frábært að RÚV og einhvern stór frönsk sjónvarpsstöð ætli að sýna leikinn. Ég búst vði fjölmörgum áhorfendum á völlinn þar sem um er að ræða eitt af stærstu liðum Evrópu með nokkra af bestu leikmönnum. Við hlökkum allavega mikið til að takast á við þær,“ segir hún um tilfinningu sína fyrir leiknum.