Arnór Snær Óskars­son er einn af leik­mönnum Vals í hand­bolta sem hafa sprungið út í veg­ferð liðsins í riðla­keppni Evrópu­deildarinnar. Hjá Val nýtur Arnór meðal annars lið­sinnis bróður síns Bene­dikts og föður síns Óskars Bjarna. Fram undan er stærsta verk­efni Vals í Evrópu­deildinni hingað til en liðið mætir þýska stór­veldinu Flens­burg í Origohöllinni í kvöld.

Það gefur auga­leið að gríðar­legur á­hugi er á leiknum enda ekki á hverjum degi sem stór­lið í hand­boltanum leika hér á landi. Upp­selt er í Origohöllina í kvöld og Vals­menn hafa, líkt og Flens­burg, farið vel af stað í riðla­keppninni með tvo sigra í fyrstu tveimur leikjum sínum.

Nú er komið að stærsta verk­efni Vals­manna til þessa og Arnór er spenntur.

„Það er mikill spenningur sem hefur gert vart við sig í að­draganda leiksins. Maður hefur verið að bíða svo­lítið eftir þessum leik, að mæta Flens­burg heima, fyrir framan allt okkar stuðnings­fólk. Þetta er draumur, al­gjör snilld.

Að upplifa draum sinn

Reynsla Vals af riðla­keppni Evrópu­deildarinnar hefur verið nokkuð góð hingað til.

„Þessir fyrstu tveir leikir okkar í Evrópu­deildinni á móti FTC og Benidorm hafa spilast nokkuð vel. Við höfum náð að spila okkar leik, náð að keyra á and­stæðinginn og í raun ekkert stoppað. Þá höfum við náð að spila góða vörn, fengið mark­vörslu, það hefur í raun allt gengið upp.“

Arnór er sem leik­maður Vals að upp­lifa draum sinn síðan í æsku.

„Ég get með sanni sagt að þetta sé draumi líkast. Maður hafði áður fengið smjör­þefinn af þessum Evrópu­keppnum, til að mynda gegn Lem­go í fyrra, en það að vera nú að keppa í riðla­keppni Evrópu­deildarinnar er ein­hvern veginn miklu stærra.

Ég man þegar maður var yngri og fylgdist með þessum stóru liðum í Evrópu, á þeim tíma­punkti hugsaði maður með sjálfum sér að þetta væri eitt­hvað sem maður vildi stefna að.“

Bræður berjast hlið við hlið

Draum sinn upp­lifir hann með bróður sínum Bene­dikt Gunnari Óskars­syni og föður sínum Óskari Bjarna Óskars­syni en bræðurnir hafa vakið verð­skuldaða at­hygli með frammi­stöðu sinni hingað til í Evrópu­deildinni.

„Það er bara frá­bært að geta upp­lifað þetta með þeim og ég get í fullri hrein­skilni sagt að ég myndi ekki vilja fara í gegnum þetta verk­efni með neinum öðrum.

Bene­dikt er frá­bær leik­maður, það er gott að spila með honum og við tengjum vel og þá er gott að hafa ein­hvern á vara­manna­bekknum sem er gott að tuða al­menni­lega í og þar kemur pabbi sterkur inn.“

Frá blaðamannafundi Vals í gær
fréttablaðið/valli

Fyrir upp­haf Evrópu­deildarinnar var mikið um það rætt að nú myndi fást betri mynd af stöðu ís­lensks fé­lags­liðahand­bolta í Evrópu enda ekki reglu­legur at­burður að Ís­land eigi lið í riðla­keppni Evrópu­móta.

Það reynist á­skorun fyrir alla hlutað­eig­andi hjá Val að halda ein­beitingunni á réttum stöðum hverju sinni en vel hefur tekist til hjá liðinu í Evrópu og hér heima.

„Mér finnst við vera að tækla þetta vel. Auð­vitað leiðir maður hugann að þessum Evrópu­leikjum þegar nær dregur en þetta getur alveg tekið á. Ég reyni bara að hugsa ekki of langt fram í tímann, heldur bara að næsta leik.

Mark­miðið var alltaf þannig, milli þessara Evrópu­leikja, að við ætluðum að vinna þá og mæta síðan fullir sjálfs­trausts í Evrópu­verk­efnið. Hingað til hefur þetta gengið mjög vel.“

Þurfa fullkominn leik

Vals­menn ætla sér að ná í úr­slit á móti Flens­burg en það gæti reynst þrautin þyngri að gera það. Hvað þurfa Vals­menn, að mati Arnórs, að gera til þess að sigra þýska stór­veldið?

„Við þurfum að ná full­komnum leik, keyra bara á þá og fá vörnina inn. Þá fylgir mark­varslan með. Ef við náum að tvinna þetta saman eru okkur allir vegir færir.“

Flens­burg situr um þessar mundir í 4. sæti þýsku úr­vals­deildarinnar og mætir sært til leiks eftir jafn­tefli gegn Melsun­gen á sunnu­daginn. Stutt er á milli leikja í þýsku úr­vals­deildinni og er það eitt­hvað sem Vals­menn gætu nýtt sér.

„Það getur vel verið að það sé ein­hver þreyta í leik­manna­hópi þeirra en að sama skapi veit ég að þessir leik­menn eru mjög vel þjálfaðir og til­búnir í þetta.

Þetta er bara fínn tíma­punktur fyrir okkur að keyra bara al­menni­lega á þá og vonandi gengur það upp.“