Breiðablik vann í gær sinn sjöunda leik í röð í Bestu deildinni þegar að liðið hafði betur gegn Fram á heimavelli í sjö marka leik. Lokaniðurstaðan var 4-3 fyrir Blika sem sitja einir á toppi deildarinnar með fullt hús stiga. Í sögu efstu deildar hafa öll þau lið sem hafa unnið sjö fyrstu leikina orðið Íslandsmeistarar.

Árið 1959 fóru KR-ingar taplausir í gegnum tímabilið og enduðu skiljanlega sem Íslandsmeistarar.

Keflvíkingar unnu fyrstu átta leiki sína á tímabilinu 1973 og urðu Íslandsmeistarar. Árið eftir, 1974 unnu Skagamenn fyrstu sjö leiki sína á tímabilinu og enduðu sem Íslandsmeistarar.

Valsmenn gerðu sér lítið fyrir og unnu fyrstu fimmtán leiki sína tímabilið 1978 og enduðu sem Íslandsmeistarar og árið 1995 var röðin komin aftur að Skagamönnum sem unnu fyrstu tólf leiki sína og urðu Íslandsmeistarar.

Síðasta dæmi þess að lið hafi unnið fyrstu sjö leiki sína og orðið Íslandsmeistarar kom árið 2005 þegar að FH-ingar bættu um betur og unnu fyrstu fimmtán leiki sína og enduðu sem Íslandsmeistarar.

Breytingar í gegnum árin

Besta deildin er spiluð með nýju keppnisfyrirkomulagi. Með því fjölgar leikjum, liðin munu mætast heima og að heiman og eftir þá leiki verður deildinni tvískipt þar sem tekur við úrslitakeppni og innbyrðisviðureignir. Alls leika því liðin 27 leiki á tímabilinu í efstu deild.

Blikar hafa farið ótrúlega vel af stað í deildinni, eru með fullt hús stiga og flest skoruð mörk. Þá hefur liðið einnig staðist erfið próf samanber leik gegn KR á útivelli, FH á heimavelli, útileik á Skaganum sem og sigra á Stjörnunni, Keflavík, Íslandsmeisturum Víkings og nú síðast Frömmurum.

Blikar eru á blússandi siglingu um þessar mundir með fimm stiga forskot á toppnum og erfitt að sjá hvað lið mun ná að skáka þeim þessa stundina.