„Það er vissulega mikið fagnaðarerindi að þeir ætli að halda mótið og reiknum með því að senda okkar fremsta fólk þangað þótt að það hafi dregist á langinn að fá upplýsingar,“ segir Eyleifur Ísak Jóhannesson, yfirmaður landsliðsmála hjá Sundsambandi Íslands, eftir að staðfest var í dag að EM í 50 metra laug í sundi verði haldið í Búdapest í vor.

Mótið sem átti upprunalega að fara fram á síðasta ári verður haldið frá 10-23. maí í Duna sundhöllinni sem hýsti HM árið 2017 og Alþjóðlegu sunddeildina sem Anton Sveinn McKee keppti í á síðasta ári.

Þetta tækifæri gæti reynst dýrmætt fyrir okkar fremsta sundfólk til að ná Ólympíulágmörkum en aðeins Anton Sveinn er kominn inn á Ólympíuleikana í Tókýó.

„Þetta fer auðvitað eftir stöðu faraldursins en ég á ekki von á því að þessu verði frestað nema allt fari úr böndunum. Mótið er haldið í Búdapest sem hýsti ISL deildina í október og nóvember sem Anton keppti í,“ segir Eyleifur og heldur áfram:

„Þau hafa reynslu af því að halda 300 manna sundmót sem stóð í sex vikur í miðjum kórónaveirufaraldri. Við erum því mjög bjartsýn að þetta mót geti farið fram og nú getur fólk farið að huga að ná lágmörkum inn á þetta mót,“ sagði Eyleifur sem átti von á um 4-6 þátttakendum frá Íslandi.

„Þetta er mjög góður möguleiki fyrir þá sem stefna á Ólympíuleikana en það er auðvitað mismunandi hvort að þetta mót henti öllum, til dæmis okkar fulltrúum sem eru í Bandaríkjunum.“