Víkingur Reykjavík tekur á móti Malmö frá Svíþjóð á Víkingsvelli í seinni viðureign liðanna í undankeppni Meistadeildar Evrópu annað kvöld. Fyrri leiknum lauk með 3-2 sigri Malmö og það getur því enn allt gerst í einvíginu.

Arnar Bergmann Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga sat fyrir svörum á blaðamannafundi í Víkinni í dag og svaraði spurningum íslenskra sem og sænskra blaðamanna.

Aðspurður um hversu erfitt það væri að fylla upp í skarð Kristals Mána Ingasonar sem er í leikbanni í leiknum hafði Arnar þetta að segja:

,,Það er auðvitað erfitt að fylla upp í skarð leikmanns á borð við Kristal Mána. Við erum hins vegar með mjög sterkann og samkeppnishæfan leikmannahóp. Þó ekki leikmann með svipaðan leikstíl og hann en leikmenn sem geta gefið okkur aðra kosti. Ég er viss um að við finnum lausn við þessu."

Hann segir stöðuna á leikmanna hópi Víkings fína. Allir séu heilir fyrir utan Kyle McLagan. Það er stutt á milli leikja hjá Víkingum þessa dagana en Arnar telur það ekki minnka möguleika liðsins á sigri í einvíginu gegn Malmö.

,,Malmö spilaði einnig fyrir nokkrum dögum síðan og áttu síðan ferðalag fyrir höndum hingað til Íslands þannig hvað þetta varðar búa liðin við svipað umhverfi. Þetta er bara umhverfið í knattspyrnuheiminum fyrir sigursæl lið, leikir á þriggja til fjögurra daga fresti. Leikmenn eru þreyttir en ánægðir með þessa stöðu. Ég tel að adrenalínið og spennan fyrir því að spila leik af þessari stærðargráðu muni fleyta þeim langt. Það eru engar afsakanir núna, bara tekist á við þetta.

Hann segir það mögulega geta verið smá auka bensín fyrir leikmenn Víkinga að hafa lent í smá mótlæti hvað varðar dómgæslu í fyrri leiknum gegn Malmö.

,,En ég horfi meira í frammistöðuna hjá okkur 11 á móti 11 sem var framúrskarandi. Við höfum horft á marga heimaleiki Malmö og það er nánast ekkert lið í sænsku deildinni sem tekur leikinn til þeirra, reyna að koma í veg fyrir yfirburði þeirra á bolta. Þannig ég var mjög ánægður með það hvernig við nálguðumst leikinn í Svíþjóð og vorum ekki hræddir við það að spila okkar leik. Það gefur okkur sjálfstraust fyrir leikinn á morgun."

,,Það var leitt að Kristall hafi verið rekinn af velli, bæði fyrir okkur sem lið sem og leikinn sjálfan því það vilja allir sjá leik 11 leikmanna á móti 11. Við sýndum hins vegar mikinn styrk og ástríðu í framhaldinu og það getur komið manni langt," sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings Reykjavíkur á blaðmannafundi í Víkinni í dag.

Leikur Víkings Reykjavíkur og Malmö í undankeppni Meistaradeildar Evrópu hefst klukkan 19:30 á Víkingsvelli á morgun.