Valdimar Svavars­son, for­maður knatt­spyrnu­deildar FH, vill í sam­tali við vef­miðilinn 433.is, ekki úti­loka endur­komu Eiðs Smára til fé­lagsins. Eiður Smári steig til hliðar úr starfi þjálfara karla­liðs FH í upp­hafi októ­ber af per­sónu­legum á­stæðum en Heimir Guð­jóns­son verður kynntur sem nýr þjálfari liðsins í kvöld.

Í yfir­lýsingu sem barst frá FH um á­kvörðun Eiðs Smára að stíga til hliðar á sínum tíma var ekki loku fyrir það skotið að hann myndi snúa aftur í þjálfara­stöðu liðsins ef hann myndi vinna í sínum málum. Að sama skapi bað Eiður Smári um svig­rúm á þeim tíma­punkti en fréttir höfðu borist af því að hann hefði verið stöðvaður af lög­reglu vegna meints ölvunar­aksturs.

Í sam­tali við433.is í dag segir Valdimar, for­maður knatt­spyrnu­deildar að staða Eiðs Smára hvað FH varðar sé breytt. Fé­lagið segir hins vegar leið opna fyrir hann aftur til FH sem haldi á­fram að standa með honum í því að koma sínum málum á réttan stað.

„Við þurfum samt fyrst og fremst að horfa á fé­lagið og hvernig við skipum nýjan hóp fyrir næsta vetur og sumar. Við þurfum að búa til teymi sem tekur þá vinnu á næstunni,“ segir Valdimar í sam­tali við 433.is.

FH sé enn í sam­skiptum við Eið Smára.

„Við fylgjumst vel með og reynum að styðja Eið eins og hægt er.“