Solskjær hafði verið undir mikilli pressu undanfarna mánuði sökum lélegra úrslita og 4-1 tap gegn Watford um nýliðna helgi gerði síðan útslagið fyrir forráðamenn Manchester United.

Í kjölfarið hefur farið fram mikil umræða um það hver muni taka við knattspyrnustjórastöðunni hjá félaginu. Michael Carrick, aðstoðarmaður Solskjærs hjá Manchester United mun stýra liðinu í Meistaradeild Evrópu í vikunni. Samkvæmt tilkynningu frá félaginu verður síðan bráðabirgðastjóri ráðinn út tímabilið.

Hlutirnir gætu hins vegar tekið óvænta stefnu og þvert á það sem Manchester United hefur gefið út. Ein atburðarrásin gæti verið sú að þjálfarakapall færi af stað.

Eins og hlutirnir standa núna er talið að Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Manchester United, sé sá knattspyrnustjóri sem forráðamenn félagsins vilja helst fá sem arftaka Solskjærs.

Mauricio Pochettino

Samkvæmt heimildum Sky Sports hefur Pochettino áhuga á að taka starfið að sér. Það sem flækir hlutina er sú staðreynd að Pochettino er samningsmbundinn franska liðinu til ársins 2023.

Gary Neville, fyrrum leikmaður Manchester United og núverandi sérfræðingur hjá Sky Sports segir það pottþétt að Pochettino myndi vilja skipta yfir til Manchester United. ,,Hann myndi aldrei gefa það út opinberlega en ef honum stæði til boða að skrifa undir fimm ára samning þá myndi hann taka því og yfirgefa Paris Saint-Germain."

Hann segir það henta Pochettino að taka við langtímaverkefni hjá Manchester United til lengri tíma í stað þess að vera í verkefni hjá Paris Saint-Germain þar sem er unnið tímabil fyrir tímabil.

Pochettino hefur reynslu af því að þjálfa í ensku úrvalsdeildinni. Hann var knattspyrnustjóri Tottenham á árunum 2014-2019 og gerði góða hluti með liðið.

Þetta gæti verið áhugaverð þróun í ljósi þess annað nafn á blaði forráðamanna Manchester United ku vera hinn franski Zinedine Zidane, fyrrum knattspyrnustjóri Real Madrid sem er án starfs eins og staðan er í dag.

Zinedine Zidane

Það virðast þó litlar líkur á því að Zidane endi í Manchesterborg, aðstæður í Bretlandi eru ekki að heilla fjölskyldumeðlimi en mögulegt starf hjá Paris-Saint Germain í heimalandinu gætu orðið til þess að skipti Pochettino til Manchester United yrðu kláruð.

Hinn virti blaðamaður Guilliem Balague, segir þetta geta orðið að veruleika. Zidane hafi ekki áhuga á stöðunni hjá Manchester United, hann myndi hins vegar íhuga tækifæri hjá franska landsliðinu eða Paris Saint-Germain.