„Ég vissi hvert Höskuldur var að fara að skjóta um leið og hann setti boltann niður á vítapunktinn. Ég get reyndar ekki sagt þér hvernig því ég gæti spilað annan leik eftir þrettán ár,“ segir Atli Jónasson, markvörður Leiknis, en hann stóð á milli stanganna gegn toppliði Breiðabliks á sunnudag í Bestu deildinni.

Leiknir tapaði leiknum 4-0 en Atli varði víti frá Höskuldi Gunnlaugssyni og fær hrós frá þeim fjölmiðlum sem fjalla um Bestu deildina.

Alls eru þrettán ár síðan Atli spilaði síðast í efstu deild. Þá spilaði hann í 4-3 tapi KR gegn Val. Logi Ólafsson stýrði þá KR.

Atli lék á sínum tíma 20 leiki með yngri landsliðum Íslands. Hann var lengst af á mála hjá litla bróður KR, KV, og átti stóran þátt í að liðið fór alla leið upp í næstefstu deild árið 2014. Hann hefur lítið spilað síðan 2018.

„Helvíti lengi að komast í gang“

Hann segir að skrokkurinn hafi verið fínn eftir leikinn. Hann sé búinn að æfa eins og maður síðan í mars og búinn að vera á bekknum í allt sumar. Hann var í fríi í gær og ætlaði að hafa það notalegt.

„Ég var helvíti lengi að komast í gang – viðurkenni það en ég er alveg í allt í lagi standi.“

Viktor Freyr Sigurðsson er aðalmarkvörður Leiknis en hann meiddist gegn KR og Atli hefur verið honum til halds og trausts.

Varamarkvörðurinn hjólaði frá slökkvistöðinni

Varamarkvörður Leiknis var svo slökkviliðsmaðurinn og Leiknisgoðsögnin Eyjólfur Tómasson.

„Það var hóað í Eyjó til að vera á bekknum. Hann æfir ekkert, er bara í slökkviliðinu, en hann er mikill Leiknismaður og segir ekki nei þegar félagið hans er í vanda. Hann hjólaði beint frá slökkvistöðinni og fékk sér sæti á bekknum.“

Leiknir er sem stendur í neðsta sæti en Atli segir að hjartað í liðinu og gæðin muni halda klúbbnum uppi. „Þjálfarinn hefur orðað þetta ágætlega í viðtölum og bent á að það sé nánast þráhyggja að halda Leikni uppi. Mér finnst við ekkert vera að fara á taugum. Við ætlum að halda okkur uppi og erum með lið og hjarta í það,“ segir Atli.