Í kvöld fara undanúrslitaleikirnir fram í Reykjavíkurmótinu í knattspyrnu. Tvær af helstu stjörnum deildarinnar, Kári Árnason og Sölvi Geir Ottesen, munu ekki spila með bikarmeisturum Víkings vegna meiðslahættu á skraufþurru gervigrasinu í Egilshöll. Víkingur spilar við Íslandsmeistara KR sem hefur misst tvo í alvarleg meiðsli á gervigrasinu sem er fjögurra ára gamalt og samkvæmt þjálfurum liðanna er úr sér gengið. Því er skipuleggjandi mótsins ekki sammála.

„Kári og Sölvi fá frí frá grasinu. Egilshöllin er fín þegar veður leyfir ekki annað. Þá er fínt að fara inn og spila leiki en um leið og veður og aðstæður leyfa þá þarf að vera sveigjanleiki til að færa leiki,“ segir Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings. Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, tekur í sama streng. „Grasið er komið til ára sinna og ég er búinn að missa tvo í alvarleg meiðsli. Það er að hluta til gervigrasinu að kenna. Ég myndi vilja færa leikina út og það er spáð góðu veðri og spila annaðhvort á Víkingsvelli eða Valsvelli.“

Steinn Halldórsson, verkefnastjóri hjá ÍBR, segir málið einfalt í sínum huga. „Það er bara spilað í Egilshöll. Það er mótsstaðurinn. Við breytum því eigi.“ Aðspurður um grasið í Egilshöll segir hann það vera nýlegt. „Það er í góðu ásigkomulagi. Það stendur í mótsreglunum að leikirnir skulu fara fram í Egilshöll. Það er búið að borga fullt af peningum fyrir að hafa þetta þarna inni.“

Arnar segir að þessi rök haldi engu vatni. „Þetta myndi ekki kosta neitt því við myndum gera þetta frítt þannig að það yrði enginn aukakostnaður. Það fellur því um sjálft sig.

Skipt var um gervigras í Egilshöllinn árið 2016. Gríðarleg notkun er á því á hverjum sólahring og það er ekki vökvað. Borið hefur á alvarlegum meiðslum í leikjum í Egilshöllinni. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Það er mikið verið að fjalla um að það sé skortur á alvöru leikjum og nú er alvöru leikur og auðvitað á að spila hann við bestu mögulegu aðstæður þannig að allir leikmenn þessara liða geta spilað.“

Rúnar bendir á að inni í Egilshöll sé lítið tempó á leiknum, boltinn skoppi mikið og hann rúlli hægt. Þá sé grasið notað mikið, frá því snemma morguns og fram á kvöld. „Ég er enginn sérfræðingur en það þarf að hirða völlinn og fá stráin til að standa upp í loftið en ekki liggja niðri. En mér finnst þetta ekki gott gras og það býður hættunni heim að spila fótboltaleiki þarna.“ Þeir Emil Ásmundsson og Hjalti Sigurðsson hafa báðir meiðst alvarlega í leik með KR í Egilshöll. Emil sleit krossband og missir af öllu tímabilinu og Hjalti viðbeinsbrotnaði.

Á sama tíma fer fram úrslitaleikurinn í fótbolta.net mótinu á gervigrasinu í Kópavogi þar sem Breiðablik og ÍA mætast. „Húsin eru frábær upp á íslenskar aðstæður en þegar þær eru fínar eigum við að fara með leikinn í betri aðstæður. Það þarf að hugsa hvað er best fyrir leikinn sjálfan.

Ég held að það sé ekki meitlað í stein að leikirnir verði að fara fram í Egilshöll. Það má ekki berjast gegn þróuninni og ekkert hægt að segja: Þetta er bara svona. Það gengur ekki upp,“ segir Arnar.

Rúnar bendir á að það sé lítið mál að færa leikina, jafnvel þó það sé búið að auglýsa staðsetningu og skipuleggja. „Það eru fáir áhorfendur að mæta á riðlakeppnina og ekki margir sem koma og sjá. Fjölmiðlaumfjöllun er lítil, fótbolti.net hefur eðlilega meiri áhuga á sínu móti og ég held að það mætti færa það út í betri aðstæður. Það er ekkert mál að færa leikina með stuttum fyrirvara með þær boðleiðir sem við höfum í dag.

Ég myndi vilja sjá þessa leiki sem eftir eru spilaða úti ef veður leyfir. Það er þá alltaf hægt að hoppa inn í höllina.

Það er búið að skipuleggja mótið og auglýsa það í Egilshöllinni, en þegar koma svona fáir áhorfendur, og yfirleitt eru þetta einhverjir tengdir leikmönnum, þá er ekki eins og það þurfi að ná til fleiri þúsunda. Það er ekkert mál með samfélagsmiðlum að koma með tilkynningu. Veðurspár á Íslandi eru góðar og við vitum með nokkura daga fyrirvara hvort þetta sé möguleiki eða ekki og þá er ekkert mál að breiða út boðskapinn.“