„Það er alveg rétt, það er synd að hafa ekki fengið að spila meira í fyrra, út frá spilamennsku minni en það var voðalega lítið hægt að hafa úr því í mótunum erlendis sem stóðu til boða. Mótaraðirnar voru búnar að segja að keppnisrétturinn yrði frystur og myndi haldast þannig maður var ekki að eltast við tvö til þrjú mót fyrir lítinn ávinning,“ segir Bjarki Pétursson atvinnukylfingur aðspurður hvort að það hafi ekki verið synd að fá ekki að fylgja almennilega eftir Íslandsmeistaratitlinum sem hann vann síðasta sumar í mótum erlendis.

Borgnesingurinn gerðist atvinnukylfingur á síðasta ári eftir að hafa leikið fyrir háskólalið Kent State í Bandaríkjunum. Þegar Bjarki lék fyrir hönd Kent vann hann tvö mót vestanhafs en heimsfaraldurinn hefur komið í veg fyrir að atvinnumannaferillinn komist á flug.

„Ég gerðist atvinnumaður fyrir ári síðan og fékk fjögur mót sem atvinnukylfingur áður en þessi faraldur skall á. Árangurinn var fínn. Það var skiljanlega vorbragur yfir manni eins og er oft hjá íslenskum kylfingum í upphafi árs eftir langa fjarveru. Fyrir vikið er komin mikil eftirvænting og tilhlökkun að komast aftur út á völl. Ég hef varla spilað síðan í lok sumars. Með því að komast á þriðja stigið í úrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðina fékk ég takmarkaðan þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni og ég fæ vonandi einhver mót þar.“

Bjarki var enn áhugakylfingur þegar hann komst ásamt Guðmundi Ágústi Kristjánssyni og Andra Þór Björnssyni á lokastig úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina árið 2019. Áður fyrr höfðu aðeins tveir Íslendingar komist á lokastigið. Hann var því fljótur að gera atlögu að Evrópumótaröðinni, næst sterkustu mótaröð heims, og tryggði sér um leið takmarkaðan þátttökurétt á næst sterkustu mótaröð Evrópu.

„Þegar ég hugsa til baka gerði ég kannski mistök í úrtökumótunum, að vera ekki líkamlega tilbúinn í átökin. Annað stigið varð að fimm daga móti í allskonar veðráttu. Það var alltaf verið að kalla okkur inn og senda okkur aftur út frá morgni til kvölds. Fyrir vikið vantaði aðeins upp á orkuna fyrir lokastigið,“ segir Bjarki og heldur áfram:

„Ég fann það með þjálfaranum og andlega þjálfaranum að það var komin þreyta. Þarna var ég að koma beint úr bandaríska háskólagolfinu þar sem mótin voru þrír hringir en ég tók þetta í reynslubankann.“

Í viðtölum eftir Íslandsmótið kom Bjarki inn á að hafa unnið í samstarfi við andlegan þjálfara til að komast yfir keppniskvíða. Hann segist sífellt vera að reyna að taka framförum bæði innan sem utan vallar þótt að æfingabann á Íslandi hafi sett strik í reikninginn.

„Ég hef reynt að nýta tímann til að byggja upp andlegu hliðina en á sama tíma var mjög krefjandi að bíða. Það kom langur tími þar sem það var varla hægt að æfa. Ég reyndi þá að nýta tímann til vinna á fullu og safna peningum til að lenda ekki í fjárhagsvandræðum. Ég vil ekki lenda í því að koma mér í góða stöðu en hafa ekki efni á því að fylgja því eftir,“ segir Bjarki hreinskilinn.

Hann kvaðst afar þakklátur fyrir þann styrk sem Forskot, afrekssjóður GSÍ, úthlutaði kylfingum en hann var á listanum sem var birtur á dögunum annað árið í röð ásamt fjórum öðrum atvinnukylfingum. „Þetta er algjör brautryðjandi fyrir okkur kylfingana og auðveldar okkur að stunda atvinnumennsku.“