Arnar Bergmann Gunnlaugsson, fyrrverandi landsliðsmaður í fótbolta, telur að Frakkland verði Evrópumeistari á komandi Evrópumóti en vonar þó sjálfur að Englandi muni vegna vel og vinna mótið í fyrsta skipti í sögunni.

Evrópumótið í fótbolta karla hefst í dag með leik Ítalíu og Tyrklands en næsta mánuðinn um það bil verða fótboltafíklar fóðraðir með gæðafótbolta. Fréttablaðið fékk Arnar Bergmann Gunnlaugsson, þjálfara Víkings, til þess að spá í spilin fyrir komandi mót.

„Það þarf svo sem engan svakalegan sérfræðing til þess að sjá að Frakkarnir eru sigurstranglegastir á þessu móti. Ég held að Frakkar gætu mætt með C-liðið sitt og farið langleiðina í úrslit. Þeir eru með fáránlega mikla breidd og nú hefur Karim Benzema bæst við hópinn frá því að þeir urðu heimsmeistarar.

Ég er spenntur að sjá Benzema á þessu móti og myndi veðja á Frakkland sem sigurvegara á mótinu. Portúgal er líka með mjög sterkt lið, Spánverjar verða sterkir ef að kórónaveiran bítur þá ekki meira en hún hefur nú þegar gert og þá eru Ítalir með öflugt lið og klókan þjálfara.

Það má svo aldrei afskrifa Þjóðverja en þeir hafa hins vegar verið svolítið sveiflukenndir síðustu mánuðina fyrir þetta mót.

Danmörk er líka með spennandi lið sem spilar skemmtilegan fótbolta en ég held að þeir séu ekki nógu öflugir til þess að fara alla leið. Svo hef ég ekki jafn mikla trú á Belgunum og margir aðrir.

Mér finnst of margir í því liði koma haltrandi inn í þetta mót og Kevin De Bruyne þarf að eiga stórkostlegt mót til þess að þeim gangi vel,“ segir Arnar um komandi veislu.

Það verður áhugavert að fylgjast með Jack Grealish í lykilhlutverki með enska landsliðinu í sumar.
Fréttablaðið/Getty

Ekki viss um klókindi Southgate

„Ég er samt mest spenntur að sjá hvernig Englendingar munu standa sig þar sem ég, eins og margir aðrir Íslendingar, held með þeim á þessu móti. Ég hlakka ofboðslega til að sjá hvernig Phil Foden og Jack Grealish munu standa sig á þessu móti. Það eru að mínu mati tveir kandídatar í að verða stjarna mótsins.

Þeirra gengi stendur hins vegar og fellur með því að hve miklu leyti og krafti Harry Maguire og Jordan Henderson geta tekið þátt á mótinu. Þeir sem leysa þá af hólmi ef þeir eru meiddir eru ekki í heimsklassa að mínu mati og það þarf þannig leikmenn til þess að vinna stórmót alla jafna.

Svo þurfa Marcus Rashford og Raheem Sterling að spila betur en þeir hafa verið að gera síðustu vikurnar eigi þetta að fara vel. Þá er ég ekki enn alveg viss um að Gareth Southgate sé nógu miskunnarlaus og klókur þjálfari til þess að geta farið með lið alla leið á stórmót en vonandi afsannar hann það,“ segir hann um sína menn á mótinu.

Skemmtilegir Spánverjar

Aðspurður um hvaða leikaðferðir og taktísk afbrigði heilli hann sem þjálfara mest af þeim liðum sem keppa á mótinu nefnir Arnar Spánverjana.

„Þeir er að spila 4-3-3 sem hljómar kannski ekki mjög spennandi en færslurnar inni á miðsvæðinu eru mjög vel drillaðar og skemmtilegar að fylgjast með. Þá verður fróðlegt að sjá hvaða nálgun Joachim Löw kemur með inn í sitt síðasta verkefni með þýska landsliðinu.

Löw hefur kallað aftur í reynda leikmenn og ég held að hann muni spila 3-4-3 þar sem nokkrir leikmenn úr Chelsea, sem spila með Þýskalandi, eru vel æfðir í því kerfi og það hentar leikmannahópnum vel.

Annars eru stórmót þannig að þjálfararnir taka ekki mikla sénsa taktískt séð og flest allt sem þeir gera er nokkuð hefðbundið og einblínt er á að gera eins fá mistök og nokkur möguleiki er á þar sem það þarf lítið út af að bregða til þess að falla úr leik,“ segir þjálfarinn.