Keflvíkingurinn Sveindís Jane Jónsdóttir varð um helgina fimmta íslenska konan til að verða þýskur meistari þegar Sveindís og stöllur hennar tryggðu sér meistaratitilinn með 7-0 sigri á Sand.

Velgengni Íslendinga í þýska boltanum heldur áfram því það hefur verið Íslendingur í öllum meistaraliðum þýsku kvennadeildarinnar undanfarin sex ár. Þetta er annar meistaratitill Sveindísar sem er á sjöunda tímabili sínu í meistaraflokki, þó að 21 ára afmælisdagurinn sé í næsta mánuði.

„Þegar ég kom inn á miðju tímabili var staðan liðsins mjög góð. Við vorum efstar þrátt fyrir að vera með talsvert breytt lið á milli ára. Eftir því sem leið á tímabilið urðum við ákveðnari í að landa meistaratitlinum og stórsigurinn á Bayern var afar sætur því hann fór langt með að tryggja okkur þetta,“ segir Sveindís Jane, spurð út í tilfinninguna að verða strax meistari á fyrstu mánuðum sínum hjá þýska stórveldinu.

Sveindís hóf tímabilið á láni hjá Kristianstads í Svíþjóð en hélt til Þýskalands í byrjun árs. Sveindís var ekki lengi að brjóta ísinn því hún skoraði tvisvar í fyrsta leiknum. Hún hefur komið við sögu í átta leikjum og skorað þrjú mörk og lagt upp önnur þrjú á 303 mínútum í deildinni.

„Væntingarnar sem eru gerðar til liðsins voru hluti af aðdráttaraflinu þegar ég samdi við Wolfsburg. Fyrstu mánuðirnir hafa staðist allar væntingar, fyrir utan vonbrigðin með að detta út gegn Barcelona í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. Við getum enn þá unnið tvöfalt en þetta verður erfiður leikur gegn Potsdam í úrslitum bikarsins þar sem allt getur gerst.“

Talið berst að leik Wolfsburg gegn Barcelona í Meistaradeildinni fyrir fullum Nývangi. Rúmlega níutíu þúsund manns voru á leiknum, sem er heimsmet.

„Það var frábært að fá að taka þátt í þessum leik á Nývangi. Þegar við vorum að spila leikinn fannst manni völlurinn vera að hristast því stuðningsmennirnir voru á fullu allan tímann. Það var erfitt að heyra varla í liðsfélögunum og erfitt að tala saman innan vallar, en það fylgir fullum völlum og vonandi er þetta það sem koma skal og við getum fyllt okkar völl í framtíðinni.“

Sveindís segist strax finna fyrir talsverðum framförum á eigin leik eftir stuttan tíma í Þýskalandi þar sem lögð er áhersla á minnstu atriði.

„Þó að þetta sé stuttur tími þá finn ég mikinn mun á eigin getu. Það er meiri áhersla lögð á öll smáatriðin hérna. Að nota fáar snertingar og nýta styrkleika manns,“ segir Sveindís og rifjar upp fyrstu æfingu sína í herbúðum þýska stórveldisins.

„Ég man eftir því að á fyrstu æfingunni var ég tekin til hliðar og sett á aukaæfingar í sendingum. Þetta var eins og ég væri bara að byrja að æfa fótbolta á ný,“ segir Sveindís létt í lund og heldur áfram:

„Þá vildu þau bæta gæði sendinganna, bæði fá betri snertingu, meiri kraft og nákvæmni og ég finn strax mikinn mun. Þessi aðstoð hefur verið frábær, það er ekkert verið að draga á langinn hvað á að bæta.“

Sveindís og stöllur fögnuðu með eftirlíkingu af meistaraskjöldinum í Þýskalandi eftir leikinn gegn Sand en þær fá hinn eina og sanna um helgina.
fréttablaðið/getty

Sveindís kvaðst spennt að fá að lyfta meistarabikar í fyrsta sinn en þegar hún var hluti af Íslandsmeistaraliði Breiðabliks átti fögnuðurinn sér stað á Zoom og engin bikarafhending.

„Ég hef aldrei séð bikarinn hjá Blikum, þannig að ég hef aldrei komið við hann né fengið að lyfta bikar. Þó að það hafi farið í reynslubankann að vinna titilinn á þann hátt sem við unnum hjá Blikum er komin mikil eftirvænting eftir að lyfta meistarabikar,“ segir Sveindís glettin.