Haraldur V. Haralds­son, fram­kvæmda­stjóri Víkings Reykja­vík, segir það til­tölu­lega stórt verk­efni fyrir fé­lagið að halda for­keppni Meistara­deildar Evrópu á Víkings­velli.

„Hingað eru að koma þrjú er­lend fé­lags­lið og mikill mann­skapur þar af leiðandi. Ætli það séu ekki um 450 gisti­nætur tengdar öllu þessu fólki, svo þarf að koma í kring flutnings­máta á liðunum hér innan höfuð­borgar­svæðisins þannig að þetta hefur verið smá púslu­spil fyrir okkur.“

Von er á knatt­spyrnu­fé­lögunum Leva­dia Tallinn frá Eist­landi, Inter Club d‘Esald­es frá Andorra og La Fio­rita frá San Marínó til Reykja­víkur á næstu dögum.

„Okkar verk­efni verður síðan að að­stoða þessi lið eins og þurfa þykir. Þar erum við að tala um að­stöðu til æfinga og annað sem þarf allt að vera eftir reglu­gerðum Evrópska knatt­spyrnu­sam­bandsins (UEFA).“

Haraldur segir þurfa tölu­vert skipu­lag í kringum for­keppni á borð við þessa. „En bara fyrst og fremst spennandi og skemmti­legt verk­efni fyrir okkur þrátt fyrir að við hefðum viljað vera lausir við að taka þátt í undan­keppninni.“

Þátt­taka Víkings í for­keppni Meistara­deildar Evrópu er ekki til­komin af góðu. Slakur árangur ís­lenskra fé­lags­liða í Evrópu­keppnum undan­farin ár hefur orðið til þess að Ís­land hefur misst sæti sitt í fyrstu um­ferð Meistara­deildar Evrópu og því þarf full­trúi landsins að hefja leik í for­keppni Meistara­deildarinnar.

„Það væri betra að vera ekki í þessum rusl­flokki en hins vegar er ekki hægt að líta fram hjá því að þetta er stórt fyrir fé­lag eins og Víking, að taka þátt í Meistara­deild Evrópu og fá þá keppni heim. Það mun klár­lega styrkja stöðu okkar.

Við sleppum við að vera með cirka þrjá­tíu manna hóp úti í viku og allan kostnað sem fylgir því. Þannig að það fylgir því á­kveðinn sparnaður að hafa unnið þetta hlut­kesti og fengið traust til þess að halda for­keppnina.“

Um­gjörðin í kringum leikina í næstu viku verði líkt og stuðnings­menn Víkings þekkja. „Við verðum með dæmi­gerða heima­leikja um­gjörð hjá okkur, um­gjörð sem er góð og hefur reynst vel. Það sem hins vegar breytist í þessum leikjum er að við megum bara selja í sæti í stúkunni. Fólk getur ekki staðið við hlið vallarins þannig að það er tak­markaður fjöldi sem mun komast á völlinn.“

Haraldur segir stemmninguna fyrir keppninni góða í Víkinni. „Fé­lags­menn og hverfis­búar eru mjög spenntir fyrir þessu, við finnum fyrir því. Þetta gæti orðið upp­hafið að á­kveðnu Evrópu­ævin­týri hjá okkur.“