Kurt Zouma, leikmaður West Ham United, játaði í dómssal í morgun að hafa sparkað og slegið til kattar síns. Zouma er sakaður um að láta köttinn sinn ganga í gegnum óþarfa þjáningar og að vernda hann ekki fyrir meiðslum. Hann gæti átt yfir höfði sér fimm ára fangelsisdóm.
Sönnunargögn í málinu, myndbönd sem tekin voru upp af bróður Kurt Zouma, Yoan og fóru í dreifingu á samfélagsmiðlum í kjölfarið voru sýnd í dómssal í morgun varpa ljósi á hræðilega framkomu Kurt og Yoan í garð tveggja katta sem voru í eigu þess fyrrnefnda.
Myndband af Kurt að sparka í og slá til kattar sín birtist í enskum miðlum í febrúarmánuði og í dómssal í dag játaði Kurt að hafa sparkað í og slegið til kattarins.
Bæði Kurt og Yoan horfðu niður til jarðar þegar að myndböndin voru sýnd í dómssal í morgun.
Hazel Stevens, saksóknari í málinu líkti sparki Zouma í köttinn við það þegar að knattspyrnumaður sparkar í bolta. Hún segir framkomu bræðranna við kettina tvo hafa þær afleiðingar að kettirnir hafi hlotið áverka og orðið fyrir áfalli sem geri þá hræddari við manneskjur í framhaldinu.
Þá var einnig varpað ljósi á það sem Zouma heyrist segja í myndböndunum ,,Ég drep hann." og ,,Ég slæ hann" er á meðal þess sem Zouma lét falla.
Zouma gæti átt yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsisdóm en refsingar fyrir dýraníð voru þyngdar í Bretlandi á síðasta ári. Dómur verður felldur þann 1. júní næstkomandi.