Forráðamenn Formúlu 1 liðs Haas hafa gert áhugaverða breytingu á skipulagi sínu í aðdraganda komandi Formúlu 1 tímabils sem hefst af alvöru í næstu viku. Umrædd breyting virkar smávægileg en hún felur í sér sparnað upp að því sem nemur rúmum 36 milljónum íslenskra króna.
Breytingin felur það í sér að sérfræðingum í teymi liðsins við stjórnborðið á þjónustusvæðinu verður fækkað úr sex niður í þrjá. Umræddir starfsmenn halda allir vinnunni en þrír þeirra munu sinna starfi sínu á annan máta.
Sparnaðurinn kemur fram í lækkuðum flutningskostnaði.
Nú standa yfir æfingar Formúlu 1 liðanna í Barein en þar mun einnig fyrsta keppnishelgi tímabilsins fara fram í næstu viku.
Á æfingunum mátti, í fyrsta skipti, sjá þessar umræddu breytingar og vöktu þær mikla athygli samfélagsmiðlanotenda.
