Julen Lopetegui hefur verið rekinn sem þjálfari spænska fótboltalandsliðsins, aðeins tveimur dögum fyrir fyrsta leik þess á HM í Rússlandi.

Í gær staðfesti Real Madrid að Lopetegui myndi taka við liðinu eftir HM. Forráðamenn spænska knattspyrnusambandsins voru afar ósáttir við vinnubrögð Lopeteguis og ráku hann.

Spánverjar standa því eftir þjálfaralausir fyrir leikinn gegn Portúgölum í Sochi á föstudaginn.

Lopetegui tók við spænska liðinu eftir EM 2016. Hann stýrði liðinu í 20 leikjum; 14 þeirra unnust og sex enduðu með jafntefli.