Spánverjar tóku á móti Íslendingum í æfingaleik á Riazor vellinum í La Coruna á Spáni í kvöld. Heimamenn voru ekki í vandræðum með íslenska liðið og unnu að lokum öruggan 5-0 sigur.

Spánverjar byrjuðu leikinn mun betur og voru, eins og við mátti búast, mun meira með boltann heldur en íslenska liðið.

Eftir linnulausar sóknir kom fyrsta mark leiksins á 36. mínútu, það skoraði framherjinn Alvaro Morata.

Aðeins tveimur mínútum síðar fengu Spánverjar vítaspyrnu eftir að Birkir Bjarnason hafði brotið á Dani Olmo innan vítateigs.

Morata tók spyrnuna og skoraði af miklu öryggi fram hjá Rúnari Alexi Rúnarssyni sem stóð í marki Íslendinga. Staðan því orðin 2-0 eftir 39. mínútna leik.

Fleiri mörk voru ekki skoruð í fyrri hálfleik.

Yfirburðir Spánverja héldu áfram í seinni hálfleik. Yeremy Pino bætti við þriðja marki heimamanna strax á 47. mínútu og Pablo Sarabia bætti síðan við því fjórða þegar 61 mínúta hafði liðið af leiknum

Sarabia var síðan aftur á ferðinni á 72. mínútu þegar að hann bætti við fimmta marki Spánar eftir stoðsendingu frá Marcos Alonso.

Fleiri urðu mörkin ekki og því lauk þessu landsliðsverkefni með fimm marka tapi gegn Spánverjum.

Íslenska karlalandsliðið á næst leik í B-deild Þjóðadeildarinnar gegn Ísrael á útivelli þann 2. júní síðar á þessu ári.