Sérfræðingur sænska fótboltamiðlsins Fotbollskanalen hefur ekki mikla trú á Víkingum Reykjavík fyrir viðureign liðsins gegn sænsku meisturunum í Malmö í Svíþjóð í kvöld þegar að liðin mætast í fyrri viðureign sinni í undankeppni Meistaradeildar Evrópu.
Raunar telur fyrrnefndi sérfræðingurinn að: ;,Malmö valti yfir Íslendingana," líkt og hann skrifar á Fotbollskanalen.
Malmö fór alla leið í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í fyrra og hefur sókn sína að því sæti á ný í kvöld gegn Víkingum sem unnu forkeppni deildarinnar í Víkinni á dögunum.
Víkingar unnu Inter d'Escaldes frá San Marínó 1-0 í úrslitaleiknum um laust sæti í undankeppninni og sérfræðingur Fotbollskanalen telur að Víkingar muni líta ansi illa út gegn Malmö bæti þeir leik sinn ekki frá þeim leik.
,,Malmö eru afar sterkir á heimavelli, það mun reyna á Oliver Ekroth og aðra í varnarlínu Víkings."
Hann telur að Víkingar muni ekki geta haldið í við leikmenn Malmö þegar að þeir auka tempóið í leiknum.
,,Ég fullyrði að vanmat er stærsti óvinur Malmö í kvöld. Gera má ráð fyrir einstefnu í leiknum, mér finnst engin ástæða til þess að ætla annað. Malmö vinnur," skrifar sérfræðingur Fotbollskanalen um viðureign Malmö og Víkings Reykjavíkur í Meistaradeild Evrópu í kvöld.
Flautað verður til leiks klukkan 17:00 að íslenskum tíma. Leikurinn fer fram í Malmö. Liðin mætast svo aftur að viku liðinni á Víkingsvelli.