Íslenski boltinn

Spá Fréttablaðsins: Fylkir hafnar í 11. sæti

Fréttablaðið spáir því að Fylkir fylgi hinum nýliðunum, Keflavík, niður í Inkasso-deildina.

Fréttablaðið spáir því að Fylkir endi í 11. sæti Pepsi-deildar karla.

Fylkir féll úr Pepsi-deildinni 2016 eftir 16 ára samfellda veru þar. Eftir tímabilið tók Helgi Sigurðsson við liðinu af Hermanni Hreiðarssyni. Gamli landsliðsframherjinn stýrði Fylkismönnum til sigurs í Inkasso-deildinni í fyrra og þeir leika því í Pepsi-deildinni í sumar.

Leikmannahópur Fylkis er mjög svipaður og fyrir tveimur árum. Hann er að mestu skipaður heimamönnum, mörgum sem hafa mikla reynslu í efstu deild. 

Fylkismenn hafa ekki styrkt sig mikið í vetur og þeir ætla að veðja á sama kjarna og vann Inkasso-deildina í fyrra.

Ásgeir Börkur Ásgeirsson er fyrirliði Fylkis. Fréttablaðið/Ernir

Styrkleikar

Lið Fylkis er að stærstum hluta skipað heimamönum sem hafa spilað lengi saman. Í leikmannahópnum eru reyndir kappar í bland við unga stráka sem Helgi gaf tækifæri í Inkasso-deildinni í fyrra. Albert Brynjar Ingason skilar alltaf sínu og liðið er sterkt inni á miðsvæðinu.

Spurningarmerkin?

Eru Fylkismenn ekki að tefla full djarft með að tefla nánast fram sama liði og féll úr Pepsi-deildinni fyrir tveimur árum? Markvörðurinn er ungur og óreyndur í efstu deild og reynslan í varnarlínunni er ekki mikil. Fylki gekk vel á heimavelli í fyrra en verið er að leggja gervigras á Fylkisvöllinn og hann verður ekki tilbúinn áður en tímabilið hefst. Spurning er hvort það hafi einhver áhrif á Fylkismenn að þurfa að spila fyrstu heimaleikina á Eimskipsvellinum í Laugardal.

Albert Brynjar Ingason skoraði 14 mörk í Inkasso-deildinni í fyrra. Fréttablaðið/Andri Marinó

Lykilmaðurinn

Albert Brynjar Ingason hélt tryggð við Fylki þegar liðið féll og skoraði 14 mörk í Inkasso-deildinni í fyrra. Albert er í aðalhlutverki í sóknarleik Fylkismanna og þarf að skora sín mörk til að þeir haldi sér uppi. Albert er markahæsti leikmaður Fylkis í efstu deild og hefur alls skorað 65 mörk í henni. Auk þess að vera drjúgur markaskorari er Albert duglegur og heldur varnarmönnum andstæðingsins við efnið.

Fylgist með

Emil Ásmundsson fór ungur til Brighton á Englandi en meiðsli settu strik í reikning hans þar. Hann sneri aftur í Árbæinn 2016 og hefur leikið með Fylki síðan þá. Emil átti afar gott tímabil með Árbæjarliðinu í fyrra og var einn af bestu leikmönnum Inkasso-deildarinnar. Emil, sem er 23 ára miðjumaður, lék á sínum tíma fjölda leikja fyrir yngri landslið Íslands. Hann fær nú annað tækifæri til að sýna sig og sanna í Pepsi-deildinni.

Helgi Sigurðsson er á sínu fyrsta tímabili sem aðalþjálfari í efstu deild. Fréttablaðið/Andri Marinó

Þjálfarinn

Eftir fallið 2016 veðjuðu Fylkismenn á Helga Sigurðsson sem hafði verið aðstoðarþjálfari hjá Víkingi R. Hann gerði vel á sínu fyrsta tímabili og stýrði Fylki til sigurs í Inkasso-deildinni. Þeir fengu flestu stigin, skoruðu flestu mörkin og fengu á sig fæst. Helgi stýrir nú liði í efstu deild í fyrsta skipti og spennandi verður að sjá hvernig honum gengur í sumar.

Helgi Valur Daníelsson lék síðast með Fylki 2005. Fréttablaðið/Daníel

Félagaskiptamarkaðurinn


Komnir:
Jonathan Glenn frá North Carolina
Helgi Valur Daníelsson byrjaður aftur
Stefán Ari Björnsson frá Gróttu

Farnir:
Bjarki Rúnar Sturlaugsson til Aftureldingar (á láni)

Árangur síðustu fimm ára:

2013: 7. sæti (26 stig)
2014: 6. sæti (28 stig)
2015: 8. sæti (29 stig)
2016: 11. sæti (19 stig)
2017: 1. sæti í B-deild (48 stig)

Fylkismenn fagna einu af 50 mörkum sínum í Inkasso-deildinni í fyrra. Fréttablaðið/Vilhelm

Tölfræðin í fyrra

Fylkir fékk aðeins sex mörk á sig á heimavelli í fyrra, fæst allra liða

Fylkir tapaði ekki leik þar sem liðið komst yfir

Fylkismenn skoruðu 28 mörk í fyrri hálfleik, níu mörkum meira en næsta lið

Íslenskir leikmenn skoruðu öll mörk Fylkis í fyrra

Albert Brynjar Ingason skoraði jafn mörg mörk á heimavelli og útivelli (7)

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Íslenski boltinn

Fyrsti sigur Víkings á Fylki í aldarfjórðung

Íslenski boltinn

Ungu strákarnir í stuði í Egilshöll

Íslenski boltinn

Tímamótamark Lennons tryggði FH sigur í Grindavík

Auglýsing

Nýjast

Æfingar hafnar á La Manga

Felix Örn aftur til Vestmannaeyja

Sigur gæti fleytt Patreki í milliriðil

Higuain færist nær Chelsea

Gott gengi gegn Makedóníu

Tímamótaleikur hjá Arnóri Þór gegn Makedóníu

Auglýsing