Íslenski boltinn

Spá Fréttablaðsins: Fylkir hafnar í 11. sæti

Fréttablaðið spáir því að Fylkir fylgi hinum nýliðunum, Keflavík, niður í Inkasso-deildina.

Fréttablaðið spáir því að Fylkir endi í 11. sæti Pepsi-deildar karla.

Fylkir féll úr Pepsi-deildinni 2016 eftir 16 ára samfellda veru þar. Eftir tímabilið tók Helgi Sigurðsson við liðinu af Hermanni Hreiðarssyni. Gamli landsliðsframherjinn stýrði Fylkismönnum til sigurs í Inkasso-deildinni í fyrra og þeir leika því í Pepsi-deildinni í sumar.

Leikmannahópur Fylkis er mjög svipaður og fyrir tveimur árum. Hann er að mestu skipaður heimamönnum, mörgum sem hafa mikla reynslu í efstu deild. 

Fylkismenn hafa ekki styrkt sig mikið í vetur og þeir ætla að veðja á sama kjarna og vann Inkasso-deildina í fyrra.

Ásgeir Börkur Ásgeirsson er fyrirliði Fylkis. Fréttablaðið/Ernir

Styrkleikar

Lið Fylkis er að stærstum hluta skipað heimamönum sem hafa spilað lengi saman. Í leikmannahópnum eru reyndir kappar í bland við unga stráka sem Helgi gaf tækifæri í Inkasso-deildinni í fyrra. Albert Brynjar Ingason skilar alltaf sínu og liðið er sterkt inni á miðsvæðinu.

Spurningarmerkin?

Eru Fylkismenn ekki að tefla full djarft með að tefla nánast fram sama liði og féll úr Pepsi-deildinni fyrir tveimur árum? Markvörðurinn er ungur og óreyndur í efstu deild og reynslan í varnarlínunni er ekki mikil. Fylki gekk vel á heimavelli í fyrra en verið er að leggja gervigras á Fylkisvöllinn og hann verður ekki tilbúinn áður en tímabilið hefst. Spurning er hvort það hafi einhver áhrif á Fylkismenn að þurfa að spila fyrstu heimaleikina á Eimskipsvellinum í Laugardal.

Albert Brynjar Ingason skoraði 14 mörk í Inkasso-deildinni í fyrra. Fréttablaðið/Andri Marinó

Lykilmaðurinn

Albert Brynjar Ingason hélt tryggð við Fylki þegar liðið féll og skoraði 14 mörk í Inkasso-deildinni í fyrra. Albert er í aðalhlutverki í sóknarleik Fylkismanna og þarf að skora sín mörk til að þeir haldi sér uppi. Albert er markahæsti leikmaður Fylkis í efstu deild og hefur alls skorað 65 mörk í henni. Auk þess að vera drjúgur markaskorari er Albert duglegur og heldur varnarmönnum andstæðingsins við efnið.

Fylgist með

Emil Ásmundsson fór ungur til Brighton á Englandi en meiðsli settu strik í reikning hans þar. Hann sneri aftur í Árbæinn 2016 og hefur leikið með Fylki síðan þá. Emil átti afar gott tímabil með Árbæjarliðinu í fyrra og var einn af bestu leikmönnum Inkasso-deildarinnar. Emil, sem er 23 ára miðjumaður, lék á sínum tíma fjölda leikja fyrir yngri landslið Íslands. Hann fær nú annað tækifæri til að sýna sig og sanna í Pepsi-deildinni.

Helgi Sigurðsson er á sínu fyrsta tímabili sem aðalþjálfari í efstu deild. Fréttablaðið/Andri Marinó

Þjálfarinn

Eftir fallið 2016 veðjuðu Fylkismenn á Helga Sigurðsson sem hafði verið aðstoðarþjálfari hjá Víkingi R. Hann gerði vel á sínu fyrsta tímabili og stýrði Fylki til sigurs í Inkasso-deildinni. Þeir fengu flestu stigin, skoruðu flestu mörkin og fengu á sig fæst. Helgi stýrir nú liði í efstu deild í fyrsta skipti og spennandi verður að sjá hvernig honum gengur í sumar.

Helgi Valur Daníelsson lék síðast með Fylki 2005. Fréttablaðið/Daníel

Félagaskiptamarkaðurinn


Komnir:
Jonathan Glenn frá North Carolina
Helgi Valur Daníelsson byrjaður aftur
Stefán Ari Björnsson frá Gróttu

Farnir:
Bjarki Rúnar Sturlaugsson til Aftureldingar (á láni)

Árangur síðustu fimm ára:

2013: 7. sæti (26 stig)
2014: 6. sæti (28 stig)
2015: 8. sæti (29 stig)
2016: 11. sæti (19 stig)
2017: 1. sæti í B-deild (48 stig)

Fylkismenn fagna einu af 50 mörkum sínum í Inkasso-deildinni í fyrra. Fréttablaðið/Vilhelm

Tölfræðin í fyrra

Fylkir fékk aðeins sex mörk á sig á heimavelli í fyrra, fæst allra liða

Fylkir tapaði ekki leik þar sem liðið komst yfir

Fylkismenn skoruðu 28 mörk í fyrri hálfleik, níu mörkum meira en næsta lið

Íslenskir leikmenn skoruðu öll mörk Fylkis í fyrra

Albert Brynjar Ingason skoraði jafn mörg mörk á heimavelli og útivelli (7)

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Íslenski boltinn

Fyrsti sigur Víkings á Fylki í aldarfjórðung

Íslenski boltinn

Ungu strákarnir í stuði í Egilshöll

Íslenski boltinn

Tímamótamark Lennons tryggði FH sigur í Grindavík

Auglýsing

Nýjast

Casillas og Salah koma Karius til varnar eftir leik

ÍBV fær góðan liðsstyrk fyrir seinni hlutann

Ljóst hvaða liðum FH og Stjarnan geta mætt

Valur gæti farið til Moldóvu eða Makedóníu

Felix Örn á leið til Danmerkur

Mourinho: Ekki komin mynd á liðið okkar

Auglýsing