Íþróttadeild
Föstudagur 5. ágúst 2022
08.56 GMT

1.sæti

Manchester City
Knattspyrnustjóri: Pep Guardiola
Lykilmaður: Kevin De Bruyne

Liðið hefur nú bætt alvöru markaskorara við frábært lið, sem varð meistari á síðustu leiktíð. City hefur selt þá Raheem Sterling og Gabriel Jesus til Chelsea og Arsenal. Aftur á móti er Julian Alvarez, afar spennandi argentískur sóknarmaður, kominn inn um dyrnar. Fyrir eru Englandsmeistararnir með einn allra besta leikmann úrvalsdeildarinnar, Kevin De Bruyne, í sínum röðum. Þá er spurning hvort að 100 milljóna punda maðurinn frá því í fyrra, Jack Grealish, springi út.

Erling Braut Haaland er mættur í ensku úrvalsdeildina
Mynd: Manchester City

2.sæti

Liverpool
Knattspyrnustjóri: Jurgen Klopp
Lykilmaður: Mohamed Salah

Liðið missti einn sinn allra besta leikmann í Sadio Mane. Hins vegar opnaði það veskið til að sækja Darwin Nunez frá Benfica. Sá skoraði svakalegt mark af mörkum í portúgölsku deildinni á síðustu leiktíð, en lítið á leiktíðinni þar á undan. Nunez skoraði einnig mikið með Almeria í spænsku B-deildinni tímabilið 2019/20. Stóra spurningin er hvort honum takist það á stærsta sviði heims. Liverpool er enn langlíklegasta liðið til að veita Man City alvöru samkeppni um Englandsmeistaratitilinn. Það mun þó ekki takast.

Darwin Nunez stefnir að því að heilla stuðningsmenn Liverpool
Fréttablaðið/GettyImages

3. sæti

Tottenham
Knattspyrnustjóri: Antonio Conte
Lykilmaður: Harry Kane

Conte er búinn að smíða sitt lið inn í sitt leikkerfi, eins og hann hefur áður gert með Chelsea og Inter. Hann er á sínu fyrsta heila tímabili með Tottenham og er frábær í því að ná árangri strax, svo það eru góðar líkur á að Tottenham verði ansi öflugt á næstu leiktíð. Liðið er svo með eitt öflugasta tvíeykið í boltanum, þá Harry Kane og Heung-Min Son.

4. sæti

Arsenal
Knattspyrnustjóri: Mikel Arteta
Lykilmaður: Gabriel Jesus

Mikel Arteta er að fara inn í sitt þriðja heila tímabil í verkefni sínu. Liðið er að verða „hans.“ Arsenal var hársbreidd frá því að ná Meistaradeildarsæti í fyrra en sárvantaði framherja sem gat skorað mörk á löngum köflum. Nú er Gabriel Jesus mættur frá Man City. Hans framlag mun hafa mikið að segja um gengi Arsenal í vetur. Arteta er með ungt lið í höndunum og gamla tuggan um að „menn séu nú árinu eldri á vel við um leikmenn á borð við Bukayo Saka, Emile Smith-Rowe og Gabriel Martinelli.

Það ríkir bjartsýni í herbúðum Arsenal en nú hefst alvaran
Fréttablaðið/GettyImages

5. sæti

Chelsea
Knattspyrnustjóri: Thomas Tuchel
Lykilmaður: Mason Mount

Thomas Tuchel hefur verið pirraður í sumar á að fá ekki þá leikmenn sem hann vill. Hann ætlaði sér að fá Jules Kounde í vörnina og Raphinha í sóknina, en missti báða til Barcelona. Hann hefur fengið Raheem Sterling, sem hefur sannað sig í úrvalsdeildinni með Man City og Kalidou Koulibaly, sem er smá spurningamerki þrátt fyrir að hafa lengi verið flottur á Ítalíu með Napoli. Stemningin í kringum Tuchel hefur verið súr. Það kæmi ekki á óvart ef hann yrði fljótur að fjúka ef illa gengur í byrjun móts.

6. sæti

Manchester United
Knattspyrnustjóri: Erik ten Hag
Lykilmaður: Bruno Fernandes

Erik ten Hag tók við Man Utd í sumar og er að byggja upp nýtt lið. Hann þarf að fá tíma í það, ef vel á að takast til. Man Utd gekk afleitlega á síðustu leiktíð og er margt sem þarf að laga. Ólíklegt er að allt smelli saman á fyrstu leiktíð ten Hag. Mikið drama hefur verið í kringum Cristiano Ronaldo, sem virðist skapa sundrung í klefanum. Man Utd hefur fengið þá Lisandro Martinez og Tyrell Malacia til liðs við sig í vörnina í sumar, auk Christian Eriksen á miðjuna. Það virðist meiri hugsun á bakvið kaupin í sumar en síðustu ár.

Erik ten Hag á mikið verk fyrir höndum hjá Manchester United
Fréttablaðið/GettyImages

7. sæti

West Ham
Knattspyrnustjóri: David Moyes
Lykilmaður: Declan Rice

Hamrarnir geta stillt upp flottu byrjunarliði en það vantar upp á breiddina. Það gæti reynst erfitt þegar líður á leiktíðina. West Ham hefur tekist að elta stóru liðin síðustu ár og mun gera það áfram. Það þarf þó aðeins meira til að taka næsta skref.

8. sæti

Newcastle United
Knattspyrnustjóri: Eddie Howe
Lykilmaður: Bruno Guimaraes

Margir bjuggust kannski við því að Newcastle færu af fullum krafti á leikmannamarkaðinn með peningamaskínuna á bakvið sig en ljóst er að byggja á liðið upp í varfærnari og öruggari skrefum. Liðið hefur fengið inn varnarmanninn öfluga Sven Botman frá Lille og þá var Matt Targett fengin endanlega inn í leikmannahópinn eftir að hafa heillað á síðasta tímabili. Auk hans er markmaðurinn Nick Pope mættur. Newcastle fór á mikið flug á síðasta tímabili eftir áramót undir stjórn Eddie Howe og í liðinu eru leikmenn sem geta farið með félagið skrefinu lengra.

9. sæti

Crystal Palace
Knattspyrnustjóri: Patrick Vieira
Lykilmaður: Wilfried Zaha

Patrick Vieira kom mörgum á óvart á síðustu leiktíð og hafnaði í tólfta sæti með lið Palace. Liðið tók miklum breytingum fyrir tímabil og breytti Frakkinn þar að auki algjörlega um leikstíl, frá því sem hafði verið undir stjórn Roy Hodgson. Palace mun halda áfram að vaxa undir stjórn Vieira í vetur og hafna í efri hluta deildarinnar.

10. sæti

Aston Villa
Knattspyrnustjóri: Steven Gerrard
Lykilmaður: John McGinn

Aston Villa er á leið í sitt fyrsta heila tímabil undir stjórn Steven Gerrard og það eru blikur á lofti um að liðið gæti tekið skref fram á við á komandi tímabili. Coutinho er orðinn leikmaður félagsins að fullu og þá eru spennandi leikmenn mættir í Diego Carlos sem og Boubacar Kamara. Þá mun mikið mæða á framherja liðsins, Ollie Watkins.

11.sæti

Leicester City
Knattspyrnustjóri: Brendan Rodgers
Lykilmaður: James Maddison

Þegar þetta er skrifað hefur engin nýr leikmaður bæst við leikmannahóp Leicester City fyrir tímabilið og erfitt að átta sig á áætlun Brendan Rodgers. Markvörðurinn sterki, Kasper Schmeichel er farinn til Nice og óljóst hver tekur við hans stöðu. Liðið ætlar sér að treysta á hinn 35 ára gamla Jamie Vardy í markaskorun og ljóst að hann þarf að vera upp á sitt allra besta ætli liðið sér góða hluti í deildinni. Leicester er eitt stórt spurningarmerki.

12.sæti

Wolves
Knattspyrnustjóri: Bruno Lage
Lykilmaður: Rúben Neves

Það mætti ætla, miðað við breytingarnar hjá Wolves milli tímabila, að liðið verði á svipuðum slóðum á komandi tímabili. Liðið hefur lítið misst og að sama skapi fengið lítið til sín. Sóknarmaðurinn Hwang Hee-Chan er mættur endanlega til liðsins og þá er miðvörðurinn Nathan Collins kominn frá Burnley.

13. sæti

Brighton
Knattspyrnustjóri: Graham Potter
Lykilmaður: Leandro Trossard

Graham Potter og hans menn hafa lítið gert á félagaskiptamarkaðnum í sumar. Liðið er að öllum líkindum að missa einn sinn besta mann, Marc Cucurella, til Chelsea. Brighton hafnaði í níunda sæti í fyrra en verður fjórum sætum neðar í vetur.

14.sæti

Leeds United
Knattspyrnustjóri: Jesse March
Lykilmaður: Tyler Adams

Leeds lenti í miklu basli á síðasta tímabili þar sem hinn geðþekki knattspyrnustjóri, Marcelo Bielsa var á endanum látinn fara. Jesse March er að fara inn í sitt fyrsta heila tímabil með liðið. Uppáhald stuðningsmanna, Kalvin Phillips er farinn til Manchester City en á móti kemur hefur félagið gert áhugaverð kaup og má þar nefna leikmenn á borð við miðjumennina Tyler Adams og Marc Roca frá RB Leipzig og Bayern Munchen.

15. sæti

Southampton
Knattspyrnustjóri: Ralph Hassenhuttl
Lykilmaður: James Ward-Prowse

Hafa fengið til sín nokkra spennandi leikmenn í sumar, eins og markvörðinn Gavin Bazunu frá Man City, Joe Aribo frá Rangers og Sekou Mara frá Bordeaux. Liðið gæti lent í vandræðum en munu þó ekki verða í verulegri fallhættu.

16.sæti

Nottingham Forest
Knattspyrnustjóri: Steve Cooper
Lykilmaður: Dean Henderson

Þetta sögufræga félag mætt aftur í deild þeirra bestu en aðal áhyggjurnar sem maður hefur af nýliðunum eru þær miklu breytingar sem hafa átt sér stað á leikmannahópi liðsins. Alls hafa 12 leikmenn verið fengnir til liðsins en sterkir póstar þar á meðal, til að mynda Jesse Lingard frá Manchester United sem búast má við að verði í aðalhlutverki. Við sáum því að Nottingham Forest bjargi sér frá falli.

17.sæti

Fulham
Knattspyrnustjóri: Marco Silva
Lykilmaður: Aleksandar Mitrovic

Strákarnir á Craven Cottage eru mættir aftur í úrvalsdeildina eftir eins árs fjarveru og sigur í Championship deildinni. Undanfarin ár hefur Fulham rokkað á milli þessari deilda en fínasta styrking hefur átt sér stað á leikmannahópnum með tilkomu Bernd Leon, portúgalska landsliðsmannsins Joao Palinha sem og Andreas Pereira frá Manchester United.

18.sæti

Everton
Knattspyrnustjóri: Frank Lampard
Lykilmaður: Dominic Calvert-Lewin

Það er fátt spennandi við Everton þessa stundina. Liðið var skelfilegt á síðustu leiktíð og rétt bjargaði sér frá falli. Dwight McNeil og James Tarkowski eru komnir frá B-deildarfélagi Burnley. Richarlison, sem var hvað hættulegastur fram á við fyrir Everton á síðustu leiktíð, er farinn til Tottenham. Þá er útlit fyrir að Dominic Calvert-Lewin, sem er maðurinn sem Everton þarf nú að treysta á, verði meiddur fyrstu leiki tímabilsins. Það er fátt sem bendir til þess að komandi tímabil Everton verði skárra en það síðasta.

Við spáum erfiðu tímabili fyrir Frank Lampard og lærisveina hans í Everton
Fréttablaðið/GettyImages

19.sæti

Brentford
Knattspyrnustjóri: Thomas Frank
Lykilmaður: Ivan Toney

Við ætlum að liðið muni kljást við ‘annars tímabil heilkennið‘ á komandi tímabili eftir að hafa farið langt á stemningunni sem nýliðar á síðasta tíambili. Brentford hefur bætt við sig varnarmönnum en misst einn af aðal leikmönnum sínum í Christian Eriksen. Við spáum brasi á Brentford sem mun að lokum enda á falli.

20. sæti

Bournemouth
Knattspyrnustjóri: Scott Parker
Lykilmaður: Lloyd Kelly

Nýliðarnir virðast eiga lítið erindi upp í efstu deild á ný og við spáum löngum vetri. Lítil styrking hefur átt sér stað á leikmannahópnum, minni en hjá aðal keppinautunum og það verður liðinu að falli.

Athugasemdir