Íþróttadeild
Fimmtudagur 7. apríl 2022
08.30 GMT

Það verður hart barist um efstu sæti deildarinnar í ár og samkvæmt spá Fréttablaðsins mun Breiðablik enda í því fjórða. Það væru sár vonbrigði fyrir Blika að enda í fjórða sæti eftir að hafa barist um titilinn í fyrra. Liðið hefur hins vegar misst lykilmenn og óvíst er hversu öflug styrkingin er sem Óskar Hrafn Þorvaldsson hefur sótt í vetur.

 1. sæti ?
  2. sæti ?
  3. sæti ?
  4. sæti - Breiðablik
  5. sæti - KR
  6. sæti - Stjarnan
  7. sæti - ÍA
  8. sæti - Leiknir R
  9. sæti - KA
  10. sæti - ÍBV
  11. sæti - Keflavík
  12. sæti - Fram

Lykilmaðurinn

Viktor Karl Einarsson skrifaði undir nýjan fjögurra ára samning við Breiðablik á dögunum sem eru gleðitíðindi fyrir Blika. Viktor Karl var frábær á síðustu leiktíð og sannaði þá fyrir öllum hversu góður leikmaður hann er. Viktor býr yfir mikilli hlaupagetu og er bæði góður sóknarmaður en einnig öflugur varnarmaður. Viktor er 25 ára gamall og á sér þann draum að komast aftur út í atvinnumennsku, hann þarf að halda sama dampi frá síðasta sumri og þá munu félög koma með stóru seðlana í Kópavoginn og sækja Viktor.

Viktor er lykilmaðurinn á Kópavogsvelli
GettyImages

Þjálfarinn

Óskar Hrafn Þorvaldsson er á leið inn í sitt þriðja tímabil með Breiðablik. Óskar hefur gjörbreytt spilamennsku Blika og hefur liðið síðustu tvö ár spilað mjög skemmtilegan fótbolta. Það er hins vegar að koma að þeim tímapunkti að spilamennska Blika þarf að skila mælanlegum árangri. Liðið var hænuskrefi frá titlinum á síðasta ári en rann á rassinn þegar allt var undir.

Óskari þarf í ár að takast að búa til lið sem vinnur titil. Óskar er kröfuharður á sig og leikmennina, hann æfir meira en flest lið og hefur haft leikmennina á sínu bandi í þessari vegferð. Leikmannakaup Óskars í vetur hafa vakið athygli en óvíst er hversu öflugir þeir leikmenn eru sem Óskar hefur sótt til félagsins. Sviðsljósið verður á Blikum í sumar sem ætla sér titilinn.

Óskar Hrafn mun þurfa að sýna fram á árangur í Kópavogi
GettyImages

Fylgist með

Omar Sowe er framherji frá Bandaríkjunum sem Breiðablik fékk að láni frá New York Red Bulls út þessa leiktíð. Sowe hefur að mestu leikið með varaliði Red Bulls en Blikum sárvantaði framherja eftir að Árni Vilhjálmsson og Thomas Mikkelsen yfirgáfu herbúðir félagsins. Omar er 21 árs gamall en hann flutti til Bandaríkjanna frá Gambíu þegar hann var 9 ára gamall. Hefur mikinn hraða og er líkamlega sterkur, gæti verið nýtt vopn í leik Blika að vera með sóknarmenn sem vinnur inn fyrir línur andstæðinganna.

Vörnin

Mikil breidd er í varnarlínu Breiðabliks en Óskar Hrafn hefur úr fjórum miðvörðum að velja. Breiðablik er með þá Damir Muminovic og Viktor Örn Margeirsson sem mynduðu frábært par á síðustu leiktíð. Elfar Freyr Helgason hefur svo jafnað sig af erfiðum meiðslum og er klár í slaginn, að auki bætti liðið Mikkel Qvist við hóp sinn. Danski varnarmaðurinn er stór og stæðilegur með góðan vinstri fót.

Höskuldur Gunnlaugsson var svo frábær sem hægri bakvörður á síðustu leiktíð en á dögunum kom Adam Örn Arnarson heim úr atvinnumennsku, þar er því mikil samkeppni. Í vinstri bakverðinum er svo Davíð Ingvarsson sem er einn besti bakvörður deildarinnar og erlend lið hafa mikinn áhuga á honum. Ljóst er að Óskar hefur mikla breidd í varnarleiknum, hann gæti freistast til þess að spila með þrjá miðverði eða fært Höskuld framar á völlinn og komið Adam fyrir í hægri bakverðinum.

Í hjarta varnar Breiðabliks má finna Damir Muminovic
GettyImages

Miðjan

Það er ótrúleg breidd á miðsvæði Breiðabliks en óvíst er hvernig Óskar muni stilla henni upp. Ljóst má vera að Gísli Eyjólfsson og Viktor Karl Einarsson verði áfram í lykilhlutverki sem tveir fremri miðjumenn félagsins. Alexander Helgi Sigurðarson yfirgaf hins vegar herbúðir félagsins í vetur og er um að ræða mikla blóðtöku, Alexander var frábær seinni hluta síðasta tímabils og var algjör lykilmaður í öllu uppspili Blika. Óskar hefur í vetur fengið Ísak Snæ Þorvaldsson sem getrur leyst stöðuna en hann hefur ekki fundið taktinn í vetur. Oliver Sigurjónsson og Andri Rafn Yeoman eru svo enn til taks og þeir þekka hlutver djúpa miðjumannsins vel. Hinn ungi Anton Logi Lúðvíksson hefur svo verið öflugur í vetur. Þá bættu Blikar við Degi Dan Þórhallssyni í vetur en hann getur einnig leyst stöðu kantmanns.

Búast má við því að Gísli Eyjólfsson og Viktor Karl Einarsson gegni lykilhlutverki á miðjunni fyrir Breiðablik
GettyImages

Sóknin

Kristinn Steindórsson hefur leitt framlínu Breiðabliks af stakri snilld í vetur og mun fá traustið til þess í upphafi móts að leiða framlínu félagsins. Kristinn er lunkinn framherji sem er alltaf meðvitaður um hvar markið er staðsett. Hefur á síðustu tveimur árum gengið í gegnum endurnýjun lífdaga í Kópavogi. Omar Sowe er svo mættur til leiks og gefur Blikum öðruvísi spil til að spila á. Jason Daði Svanþórsson kom frábær inn í liðið í fyrra og eru miklar væntingar gerðar til hans í sumar, hann ógnar með hraða sínum en hefur einnig mikla tæknilega getu. Blikar hafa misst Árna Vilhjálmsson og Thomas Mikkelsen frá síðustu leiktíð en Óskar Hrafn þarf að finna nýjar leiðir til þess að láta sóknarleikinn blómstra.

Komnir:
Dagur Dan Þórhallsson
Adam Örn Arnarson
Ísak Snær Þorvaldsson
Juan Camilo Perez
Mikkel Qvist
Omar Sowe (Lán)
Pétur Theodór Árnason

Farnir:
Thomas Mikkelsen
Árni Vilhjálmsson
Alexander Helgi Sigurðarson
Davíð Örn Atlason

Árangur

Síðustu sex tímabil: 2016 – 6 sæti, 2017 – 6 sæti, 2018 – 2 sæti, 2019 – 2 sæti, 2020 - 4 sæti, 2021 – 2 sæti.

Íslandsmeistarar - 2010– Bikarmeistarar – 2009

Athugasemdir