Þennan dag var sendur innan stjórnarhópsins tölvupóstur með efnisheitinu „SOS Arnar er brjálaður við þurfum að aðstoða hann“. Í þeim samskiptum kemur m.a. fram að varaformenn KSÍ, Borghildur Sigurðardóttir og Gísli Gíslason, hafi síðar um kvöldið átt fund með Arnari Þór og Eiði Smára Guðjohnsen, aðstoðarþjálfara íslenska karlalandsliðsins þar sem gleymst hafi „að fara yfir næstu skref með landsliðsþjálfurunum og hvernig [eigi] að tækla framhaldið með landsliðið“.

Í viðtölum við úttektarnefndina kom fram að varaformenn KSÍ hefðu greint Arnari frá þeirri skoðun sinni að ef B yrði valinn í landsliðshópinn þá yrði farsi í kringum næstu þrjá heimaleiki liðsins. Gísli Gíslason, annar varaformanna KSÍ, lýsti því til dæmis í viðtali við nefndina að fólk hefði komið inn á skrifstofur KSÍ og sýnt þar ógnandi hegðun og að starfsfólk KSÍ hefði auk þess fengið ljóta tölvupósta.

Þann 22. september síðastliðinn skipaði ÍSÍ nefnd til að gera úttekt á viðbrögðum og málsmeðferð KSÍ vegna kynferðisofbeldismála sem tengst hafa leikmönnum og landsliðum Íslands. Nefndin hefur nú lokið störfum og skilað af sér niðurstöðum

Úttektarnefnd ÍSÍ hefur komist að þeirri niðurstöðu að vitneskja hafi verið innan KSÍ um alls fjórar frásagnir um að leikmenn eða aðrir sem hafa starfað fyrir sambandið hafi beitt kynbundnu eða kynferðislegu ofbeldi á árunum 2010-2021.

„Nefndin telur ljóst að KSÍ hafði brugðist við í þremur þessara mála, annaðhvort með því að leikmaður var sendur heim úr landsliðsverkefni eða því að viðkomandi starfaði ekki aftur fyrir KSÍ,“ segir í umfjöllun nefndarinnar um málið.