„Það er auðvitað verulega spennandi að vera komnar saman til að hefja þetta verkefni. Þegar við komum til Englands eftir leikinn í Póllandi og æfingarnar í Þýskalandi á spennan þetta eftir að verða raunverulegra,“ segir Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði kvennalandsliðsins, aðspurð hvernig tilfinningin væri að hefja æfingar fyrir EM kvenna.

Sara er að fara á sitt fjórða stórmót en fyrsta eftir að hún eignaðist frumburð sinn, Ragnar Frank, í vetur.

Þegar hún bar barn undir belti talaði hún um markmið sín að leiða íslenska liðið á EM í sumar og viðurkenndi hún að það væri fyrir vikið aukin vigt að vera komin til móts við liðið að hefja undirbúning.

„Auðvitað hefur þetta aukna þýðingu fyrir mig. Fyrsta markmið mitt var að fara út og æfa með Lyon án verkja og án þess að það kæmi upp bakslag. Næsta markmið var að komast í hópinn og það tókst. “

Sara segir að henni líði vel, aðspurð hvernig heilsan sé í aðdraganda EM.

„Mér líður ótrúlega vel. Líkami manns er ótrúlegur og kemur mér sífellt á óvart. Ég vissi ekki alveg hvernig líkaminn myndi bregðast við, enda að eignast barn í fyrsta sinn,“ segir Sara fékk ekki margar mínútur undir lok tímabilsins.

„Ég hef ekki fengið jafn margar mínútur og ég hefði kosið, en þær mínútur sem ég hef fengið, þá hefur gengið vel.“

Íslenska liðið er ekki búið að setja sér nein markmið en segir fyrsta markmið að fara upp úr riðlinum.

„Við eigum eftir að setja okkur markmið, en það segir sig sjálft að við ætlum okkur upp úr riðlinum. Það eru öll lið að taka framförum á milli móta.“

Sara verður samningslaus þegar mótið hefst en hún segir að það gæti dregið til tíðinda á næstu dögum.

„Búin að vera í viðræðum við lið síðustu vikur og það er von á tíðindum á næstunni,“ segir Sara Björk, aðspurð út í næsta skref og vildi ekki segja hvort að hún myndi skrifa undir fyrir Evrópumótið.