Shareef O'Neal, sonur sjónvarpsmannsins og körfuboltamannsins goðsagnarkennda Shaquille O'Neal, er í nýliðavali NBA-deildarinnar sem fer fram annað kvöld. Hann æfði meðal annars með Los Angeles Lakers í aðdraganda nýliðavalsins.

Lakers birti mynd af Shareef á æfingu í gærkvöld en faðir hans, Shaquille, er af mörgum talinn besti miðherji sögunnar í NBA-deildinni í körfubolta.

Shaq eins og faðir hans var iðulega kallaður vann þrjá meistaratitla og var valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar öll árin þrjú með Los Angeles Lakers frá 2000 til 2002. Þá var hann valinn besti leikmaður deildarinnar árið 2000.

Shareef þótti efnilegur körfuboltamaður en heilsufarsvandamál hafa sett strik í reikninginn. Hann þurfi meðal annars að gangast undir aðgerð vegna hjartagalla og kom lítið við sögu á síðasta tímabili í bandaríska háskólaboltanum.