Diego Maradona yngri, sonur argentínsku knattspyrnugoðsagnarinnar Diego Armando Maradona, segist niðurbrotinn eftir óvænt tap Argentínu gegn Sádi-Arabíu á HM í Katar í gær. Þá vill hann ekki bera föður sinn og Lionel Messi saman, það sé vart hægt.

Tap Argentínu gegn Sádi-Arabíu í gær eru talin vera ein óvæntustu, ef ekki óvæntustu úrslit HM í knattspyrnu.

Í viðtali við ítölsku útvarpsstöðina Radio Marte segist Diego Maradona yngri vera niðurbrotinn eftir ósigur argentínska landsliðsins. Um sé að ræða ótrúleg úrslit.

Maradona yngri telur landa sína í argentínska landsliðinu hafa verið hrædda í leiknum, þegar slíkt gerist í knattspyrnu og stærri lið geta ekki lokað sínum leikjum geta þau átt von á ósigri, jafnvel gegn slökustu liðum.

Ber ekki saman föður sinn og Messi

Lionel Messi er nú þegar, líkt og Maradona á sínum tíma, orðinn að knattspyrnugoðsögn, ekki bara í Argentínu heldur líka á heimsvísu.

Messi er þó að eltast við titil sem Maradona hampaði á sínum knattspyrnuferli, heimsmeistaratitilinn og er hans síðasta tækifæri á því að ná titlinum á yfirstandandi heimsmeistaramóti.

Maradona yngri segir að fólk, sem ber saman föður hans og Messi, skilji ekki knattspyrnu.

,,Samanburðurinn á Messi og föður mínum kemur frá fólki sem sjá ekki og skilja ekki knattspyrnu.

Við erum að tala um leikmenn sem koma frá tveimur mismunandi plánetum."