Það styttist í að nýliðavalið í NFL-deildinni fari fram og er eitt nafn sem vekur mikla athygli. Hlauparinn Elijah Holyfield sem lék með Georgia Bulldogs er sonur Evander sem var á sínum tíma einn besti hnefaleikakappi heims.

Sá eldri, Evander, var duglegur í barneignum og á alls ellefu börn með sex mismunandi konum. Hann hefur átt í erfiðleikum eftir að ferlinum lauk og hefur verið í fjárhagsvandræðum.

Elijah var varaskeifa hjá Georgia fyrsta árið fyrir Sony Michael og Nick Chubb en eftir að Chubb og Michael ákváðu að fara í NFL-deildina síðasta vor með góðum árangri fékk Elijah stærra hlutverk.

Hann skilaði 1018 jördum og sjö snertimörkum með liði Georgia á nýafstöðnu tímabili og ákvað eftir það að gefa kost á sér í nýliðavali NFL-deildarinnar enda er mikill áhugi á honum.

Sérfræðingar NFL Network sem sjá um nýliðavalið telja að hann gæti verið valinn í fyrstu umferðinni eftir að hafa séð fyrrum liðsfélaga hans, Michael og Chubb, slá í gegn á nýafstöðnu tímabili.

Nýliðavalið fer fram í lok apríl í Tennesee.