Suður-kóreska framherjanum Son Heung-min sem leikur með Tottenham Hotspur verður boðin sálfræðiaðstoð en hann varð fyrir því óláni að vera valdur að því að André Gomes leikmaður Everton fótbrotnaði í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla.

Leikmenn og þeir stuðningsmenn sem sáu brotið voru auðsjáanlega slegnir í kjölfar fótbrotsins og atvikið fékk greinilega mikið á Son sem hágrét þegar hann sá afleiðingar brots síns.

Mauricio Pochettino knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur sagði í samtali við enska fjölmiðla eftir leikinn að félagið myndi bjóða liðsmanni sínum sálfræðiaðstoð til þess að vinna sig út úr atvikinu.

Leikur liðanna lyktaði með 1-1 jafntefli en Tottenham Hotspur er eftir þessa umferð í 11. sæti deildarinnar með 13 stig en Everton er hins vegar í 17. sæti deildarinnar með 11 stig.