Son Heung-min og Érik Lamela framlengdu í dag samninga sína við enska úrvalsdeildarliðið Tottenham.

Son skrifaði undir nýjan fimm ára samning við Spurs. Hann kom til félagsins frá Bayer Leverkusen 2015. 

Son hefur leikið 140 leiki fyrir Tottenham og skorað 47 mörk. Hann er markahæsti Suður-Kóreumaðurinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.

Lamela framlengdi samning sinn við Tottenham til 2022. Argentínumaðurinn hefur verið í herbúðum félagsins síðan 2013 en hann kom frá Roma á Ítalíu.

Lamela meiddist á mjöðm í október 2016 og var frá keppni í rúmt ár. Hann lék 29 leiki á síðasta tímabili og skoraði fjögur mörk.

Tottenham endaði í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili og leikur því í Meistaradeild Evrópu í vetur.

Tottenham sækir Newcastle United heim í 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnar laugardaginn 11. ágúst.