Son Heung-min, leikmaður Tottenham, er einum sigri frá því að sleppa við að sinna tveggja ára herþjónustu.

Suður-Kórea tryggði sér sæti í úrslitaleik Asíuleikanna eftir 3-1 sigur á Víetnam í dag.

Tvær leiðir eru fyrir suður-kóreska fótboltamenn til að sleppa við herþjónustu. Annars vegar með því að komast á verðlaunapall á Ólympíuleikum og hins vegar með því að vinna Asíuleikana.

Suður-Kórea vann Asíuleikana fyrir fjórum árum og þeir leikmenn sluppu við herþjónustu. Son lék ekki með á Asíuleikunum 2014 því hann fékk ekki leyfi frá Bayer Leverkusen til að leika með landsliðinu.

Suður-Kórea lenti í 3. sæti á Ólympíuleikunum í London 2012. Meðal leikmanna í bronsliðinu var Ki Sung-yeung sem hefur leikið í ensku úrvalsdeildinni í mörg ár. Hann þurfti bara að vera fjórar vikur í hernum.

Það kemur í ljós síðar í dag hvort Suður-Kórea mætir Japan eða Sameinuðu arabísku furstadæmunum í úrslitaleik Asíuleikanna á laugardaginn.