Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ úrskurðaði í dag Sölva Geir Ottesen, varnarmann karlaliðs Víkings í knattspyrnu í þriggja leikja bann. Sölva Geir var líkt og Kára Árnasyni og Halldóri Smára Sigurðarsyni vísað af velli með rauðu spjaldi í leik Víkings gegn KR í fjórðu umferð Íslandsmótsins á laugardaginn var.

Þríeykið verður í leikbanni þegar Víkingur fær Val í heimsókn í fimmtu umferð mótsins á Víkingsvöllinn annað kvöld. Sölvi Geir lét ýmis miður sæmileg orð falla í garð dómarateymisins á leið sinni af velli í kjölfarið þess að hann fékk að líta rauða spjaldið.

Fram kemur í úrskurði aga- og úrskurðarnefndarinnar að sú háttsemi Sölva Geirs sé metin sem ofsaleg framkoma sem verðskuldi þriggja leikja bann. Sölvi mun því sömuleiðis missa af deildarleikjum Víkingsliðsins gegn HK og ÍA.

Víkingur hefur fimm stig eftir fyrstu fjóra leiki sína á mótinu en liðið situr í áttunda sæti deildarinnar. Fossvogsliðið hafði betur gegn FH í leiknum á undan KR-leiknum, gerði 1-1 jafntelfi við Fjölni í fyrstu umferðinni og markalaust jafntelfi á móti KA þar á eftir.