Ole Gunnar Solskjær sem stýrir skútunni hjá enska knattspyrnuliðinu Manchester United kveðst vongóður um að franski landsliðsmaðurinn Paul Pogba muni framlengja samning sinn við félagið og vera í lykilhlutverki hjá liðinu næstu árin.

Pogba hefur verið orðaður við sitt gamla félag, Juventus, og Real Madrid undanfarna mánuði en hann hefur sjálfur ekki dregið dul á það að hann væri alveg til í nýja áskorun á ferli sínum á næstu misserum.

Miðvallarleikmaðurinn hefur einungis leikið átta leiki með Manchester United á yfirstandandi leiktíð en hann hefur verið að glíma við meiðsli lungann úr leiktíðinni.

Hann hefur hins vegar leikið með Manchester United í síðustu fimm leikjum liðsins og leikið vel fyrir liðið sem hefur ekki beðið ósigur í síðustu 16 leikjum sínum í öllum keppnum.

Manchester United hefur nýverið framlengt samninga sína við miðjumennina Nemanja Matic og Scott McTominay. Solskjær vonast til þess að Pogba geri slíkt hið sama á næstunni.

„Ég get ekki tjáð mig í smáatriðum um stöðu mála hvað samningaviðræður varðar við Pogba. Ég get hins vegar sagt að ég vonast til þess að halda mínum bestu leikmönnum og Pogba er þar á meðal.

Við viljum byggja liðið í kringum Scott og Nemanja sem djúpa miðjumenn. Við þurfum svo leikmenn í miðjustöðuna þar fyrir framan og ég sé Pogba fyrir mér sem einn af þeim sem munu leika sem sóknartengiliðir," segir Solskjær um stöðu mála.

Sveinar Solskjær sækja Aston Villa heim í 34. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld en fyrir þann leik situr Manchester United í fimmta sæti deildarinnar með 55 stig og er fjórum stigum á eftir Leicester City sem er sæti ofar.