Ole Gunnar Solskjaer segist ætla að standa með spænska markverðinum David de Gea þrátt fyrir að hann hafi ekki verið upp á sitt besta upp á síðkastið.

De Gea átti að gera mun betur í öðru marki Manchester City á miðvikudaginn og hægt er að setja spurningarmerki við markvörðinn í fyrra markinu sem og tveimur mörkum gegn Everton um síðustu helgi.

Spænski markvörðurinn hefur verið einn besti markvörður heims undanfarin ár og hefur til þessa neitað að skrifa undir nýjan samning á Old Trafford þegar aðeins átján mánuðir eru eftir af núverandi samning.

Alls eru tveir mánuðir liðnir síðan De Gea hélt síðast hreinu og eru stuðningsmenn félagsins farnir að ræða hvort að samningsviðræðurnar séu að trufla markvörðinn.

„Það kemur ekki til greina að hann detti út úr liðinu, ég treysti honum og hann hefur verið einn besti leikmaður félagsins undanfarin sex eða sjö ár. Það er hluti ferils knattspyrnumanna að eiga erfiðar vikur og David mun koma sterkari úr þessu.“