Starf Ole Gunnar Solskjær sem knattspyrnustjóri Manchester United virðist vera öruggt eins og sakir standi. Norðmaðurinn fékk traustið frá stjórn félagsins, eftir slæmt tap gegn Liverpool um þarsíðustu helgi, til þess að snúa úrslitunum United í vil og það verkefni byrjar vel.

Eftir sigur helgarinnar situr Manchester United í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með sautján stig úr tíu leikjum. Átta stigum frá toppliði Chelsea.

Á næstu vikum bíða liðsins hins vegar erfiðir leikir gegn liðum á borð við Manchester City og Chelsea og fróðlegt verður að fylgjast með framhaldinu í Manchesterborg.

Pressan er meiri á Nuno Espirito Santo, knattspyrnustjóra Tottenham. Liðið situr í 8. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og hefur gengið erfiðlega að finna markið í síðustu leikjum.

Tottenham átti ekki skot að marki Manchester United í leik liðanna á laugardaginn.

Sky Sports greinir frá því að stjórn Tottenham íhugi nú framtíð Portúgalans hjá félaginu og því gæti farið að draga til tíðinda á næstu klukkustundum.

Nuno tók við starfi knattspyrnustjóra hjá Tottenham fyrir tímabilið eftir að hafa gert góða hluti hjá Wolves. Hann skrifaði undir tveggja ára samning við félagið.

Nuno var ekki fyrsti kostur stjórnarinnar í starfið, félagið reyndi að fá aðra knattspyrnustjóra til starfa en illa gekk að fylla plássið.