Enskir fjölmiðlar greindu frá því í gær að samherjarnir hjá Manchester United Paul Pogba og Jesse Lingard hafi rifist á æfingu liðsins í Ástralíu.

Ole Gunnar Solskjær knattspyrnustjóri Manchester United sagði á blaðamannafundi í dag að engin vandræði hafi verið á milli leikmanna á æfingunni.

„Það er herferð í gangi gegn Paul Pogba. Hann er toppmaður og mikill fagmaður í allri nálgun sinni. Það hafa aldrei verið vandamál með hann á meðan ég hef verið við stjórnvölinn," segir Ole Gunnar.

„Þessi frétt um Jesse and Paul í gær er gott dæmi um það. Þeir voru að labba saman og það er sett upp sem þeim hafi lent saman. Ég veit að þið þurfið að finna sögur til þess að selja blöð, en það er enginn fótur fyrir þessari frétt," segir Norðmaðurinn enn fremur.

Mino Raiola umboðsmaður Paul Pogba hefur mikið rætt um framtíð Frakkans undanfarið og segir Raiola að Pogba vilji fara frá Manchester United og Juventus og Real Madrid séu líklegir sem næstu áfangastaðir á ferli hans.

„Það er gömul saga og ný að leikmenn séu orðaðir til og frá Manchester United á sumrin. Við erum þannig félag að við látum ekki þvinga okkur til þess að selja leikmenn sem eru á mála hjá okkur. Pogba er ekki á förum svo ég best viti," segir Ole um framtíð Pogba.