Ivana Knoll, króatískur áhrifavaldur og hörð stuðningskona króatíska landsliðsins í knattspyrnu, er harðlega gagnrýnd fyrir klæðaburð sinn í Katar þar sem Heimsmeistaramótið í knattspyrnu fer nú fram og sökuð um að vanvirða lög þar í landi.
Greint er frá málinu á vefsíðu The Sun en Ivana er stödd í Katar þessa stundina til þess að fylgja landsliði sínu eftir. Þaðan hefur hún birt myndir af sér, meðal annars af af stöndum Doha en hefur í kjölfarið orðið fyrir netníð.
Nettröllin saka Ivönu um að fara á svig við lög í Katar með því að vera fáklædd á almannafæri en lög í ríkinu kveða á um hið andstæða. Hún sé með þessu að sýna menningu Katar vanvirðingu.
Ivana svarar þessu hins vegar á þá leið að spyrja hverjum geti sárnað við að hún klæðist sínum klæðum. Yfirvöld í Katar séu hingað til ekki að valda henni miklum vandkvæðum.
Ivana hefur hingað til sótt alla leiki Króatíu á HM í riðlakeppninni, lokaumferðin er fram undan en Króatía mætir Belgíu á morgun. Sigur eða jafntefli myndi tryggja liðinu sæti í 16-liða úrslitum.